Byrjunarlið Selfoss gegn Val 2019
Selfoss tapaði 4-1 þegar liðið heimsótti Val að Hlíðarenda í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.
Leikurinn varn jafn í fyrri hálfleik en liðin fengu ekki nema hálffæri þangað til Barbára kom okkur yfir á 33. mínútu með algjörlega frábæru marki. Boltanum var spilað úr öftustu línu upp vinstri kantinn og Darian átti lykilsendingu innfyrir á Barbáru sem tók á sprett með boltann lék á varnarmann Vals og smurði svo boltanum upp í samskeytin, í stöngina og inn.
En Eva var ekki lengi í paradís því mínútu síðar fengu Valskonur hornspyrnu og uppúr henni skoraði Elín Metta Jensen eftir þvögu í teignum. Á lokamínútu fyrri hálfleiks gaf dómari leiksins Valskonum síðan vítaspyrnu eftir að Elín Metta datt í teignum og hún fór sjálf á punktinn og skoraði. 2-1 í hálfleik.
Valur var sterkari í seinni hálfleik en Selfoss varðist af krafti. Eitthvað varð þó að láta undan og á 81. mínútu kórónaði Elín Metta svo þrennuna eftir slæm mistök í vörn Selfoss. Selfossvörnin opnaðist svo aftur á 90. mínútu og Guðrún Karítas Sigurðardóttir nýtti það tækifæri til þess að skora fjórða mark Vals.
Eftir fimm umferðir hefur Selfoss 6 stig og er í 8. sæti Pepsi Max deildarinnar. Næsti leikur liðsins er í Mjólkurbikarnum laugardaginn 1. júní kl. 13 gegn Stjörnunni á útivelli. Næsti deildarleikur er heimaleikur gegn Þór/KA miðvikudaginn 5. júní kl. 18:00.
Lið Selfoss: Mark: Kelsey Wys. Vörn: Bergrós Ásgeirsdóttir, Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, Cassie Boren, Barbára Sól Gísladóttir. Miðja: Eva Lind Elíasdóttir (Anna María Friðgeirsdóttir 54), Þóra Jónsdóttir (Halla Helgadóttir 80), Karítas Tómasdóttir, Grace Rapp, Magdalena Anna Reimus. Sókn: Darian Powell (Hólmfríður Magnúsdóttir 62).
Ónotaðir varamenn: Friðný Fjóla Jónsdóttir (M), Brynja Valgeirsdóttir, Anna María Bergþórsdóttir, Halldóra Birta Sigfúsdóttir.
Fjallað var um leikinn á sunnlenska.is, fotbolti.net og mbl.is.
Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leiknum.
https://www.facebook.com/selfossfotbolti/videos/661180547658796/