Zoran Ivic
Þessa vikuna er Serbinn Zoran Ivic gestaþjálfari hjá handknattleiksakademíu FSu og Umf. Selfoss og er hann hér í boði Sebastians Alexanderssonar yfirþjálfara akademíunnar.
Zoran Ivic er afar virtur á sínu svið og hefur starfað sem handknattleiksþjálfari sem atvinnumaður í 21 ár, aðallega í Serbíu. Frá árinu 1999 hefur hann komið að þjálfun allra karlalandsliða þjóðarinnar, frá unglingalandsliðunum og upp til A-landsliðsins auk þess sem hann var aðalþjálfari kvennalandsliðs Serbíu um tíma.
Auk þess hefur hann þjálfað öll bestu félagslið Serbíu bæði karla og kvenna. Þar má helst nefna Rauðu Stjörnuna og Partizan í Belgrad auk Budocnost sem er stærsta kvennalið Serbíu. Áður en hann gerðist þjálfari var hann leikmaður í heimalandinu og síðar í 2. deild í Þýskalandi þar sem þjálfaraferillinn hófst.
Gæðamat og ráðleggingar
„Þetta er í annað skipti sem ég er gestaþjálfari hjá akakemíunni en áður kom ég árið 2007. Auk þess að stjórna æfingum með iðkendur akademíunnar þá hef ég verið beðinn um að taka út starfsemina, leiðbeina og gefa þjálfurum nýjar hugmyndir sem geta nýst til að brjóta upp starfið og gera það fjölbreyttara.“ sagði Ivic í samtali við heimasíðu Ungmennafélagsins.
Metnaðarfullar æfingar
Að sögn Ivic eru spilaður góður handbolti á Selfossi. Gæðin eru mikil, bæði árið 2007 og enn frekar í ár. „Hér er mikið af hæfileikaríkum leikmönnum sem geta náð langt í íþróttinni.“
Miðað við íbuáfjölda kemur það honum á óvart hversu margir góðir krakkar eru að æfa á Selfossi. Eins segir hann það áberandi hversu góður æfingakúlturinn er þ.e. að krakkarnir eru dugleg að æfa, þau eru viljug að láta segja sér til og fara eftir því til að taka framförum.
Frá sjónarhóli þjálfarans stendur upp úr, í bæði skiptin sem hann hefur komið, hversu vel þjálfurum í akademíunni tekst að halda úti góðum æfingum og miklum gæðum með það að augljósu markmiði að búa til framtíðarleikmenn. Það telur hann einu mögulegu leiðina fyrir félög til að ná árangri til lengri tíma. Það er ánægjulegt að sjá þessum markmiðum fylgt eftir með markvissum hætti.
Umgjörðina þarf að efla
„Til að ná enn betri árangri og uppfylla háleitari markmið þarf þolinmæði. Betra væri ef að leikmenn í eldri aldursflokkunum fengju meiri tíma til æfinga, þ.e. fleiri æfingatíma og/eða lengri æfingar. Hér skiptir umgjörðin miklu máli því að ekki þarf að gera allt á gólfi íþróttahússins.“ segir Ivic. Hluti af því ferli að skapa góðar æfingar er að auka upphitun, vinna með liðleika, samhæfingu og hreyfitækni, snerpu og kraft. Til þess þarf að byggja upp aðstöðu á einum stað sem nær út fyrir dýrmætan æfingatíma á gólfi íþróttahússins. Það þarf að skapa góða aðstöðu á einum stað fyrir æfingar sem geta farið fram utan dyra, lyftingasal, upphitunar- og teygjusal ásamt félagsaðstöðu.
Ivic segir að með því að fjölga góðum æfingum og skapa þá umgjörð að æfingar séu lengri í hvert skipti aukum við líkur á að ná hámarksárangri út úr þeim hæfileikaríku krökkum sem æfa hjá Umf. Selfoss.
Þjálfun yngri iðkenda er, að mati Ivic, þolinmæðisvinna. Þar þarf að vinna með einstaklingstækni. Til þess þurfa þjálfarar þolinmæði, gott skipulag og framtíðarsýn hvernig hægt er að ná markmiðum sínum. Þá skiptir máli að æfingar séu nógu margar en ekki er þörf á eins löngum æfingum og hjá eldri iðkendum.
Að lokum segir hann tvö meginatriði þurfa að hafa í huga varðandi þjálfun í akademíu. Annað er sú hugsjón að búa til og skapa en hitt er að ná árangri. Bæði atriði verða að vera til staðar. Þjálfarar þurfa að vera skapandi og þolinmóðir til þess að skapa leikmenn en niðurstaðan þeirrar vinnu leiðir síðan til þess árangurs þarf að vera til staðar til að drífa starfið áfram.
Þolinmæði er lykillinn að lokamarkmiðinu
Samanburðurinn á handboltanum í Serbíu og Íslandi er okkur í hag enda sýnir árangur íslenska landsliðsins það. Það er augljóslega vel staðið að þjálfun á Íslandi sem leiðir af sér mikinn fjölda atvinnumanna þar sem leikmenn þroskast og skila sér svo í landsliðið.
„Hins vegar er vandamálið svipað á Íslandi og í Serbíu.“ segir Ivic og bætir við „Mikið af ungum leikmönnum fer snemma frá sínu félagi og áður en þeir eru tilbúnir til að taka næsta skref á sínum ferli.“ Að hans sögn eru leikmenn óþolinmóðir að komast í annað umhverfi sem þeir oft vita ekki hvað er. Í stað þess ættu þeir að vera lengur heima til að þroskast betur sem leikmenn og einstaklingar.
„Í gegnum tíðina í minni þjálfun í Serbíu þurfti ég oft að sannfæra unga leikmenn um að vera lengur heima. Ég gat sannfært flesta um að vera lengur. Þeir þroskuðust áfram og tóku framförum sem góðir leikmenn á heimaslóðum. Þessir leikmenn eru í dag atvinnumenn hjá góðum liðum í Evrópu og eru mjög margir í landsliðinu ólíkt mörgum félögum þeirra sem ekki gátu beðið eftir rétta augnablikinu. Margir hverjir af þeim sem fóru of snemma eru hættir, komnir heim aftur án árangurs eða hafa meiðst illa vegna þess að þeir voru ekki andlega né líkamlega tilbúnir í atvinnumennsku.“ segir Ivic.
Gríðarlega hæfileikaríkir einstaklingar á Selfossi
Ivic segist, á þessum dögum sem hann hefur dvalið á Selfossi, hafa séð gríðarlega hæfileikaríka iðkendur bæði í 3. flokki karla og kvenna. Í ljósi þess sem hann sagði áður telur hann best að þau verði áfram á Selfossi í einhvern tíma, þroskist og bæti sig sem leikmenn í því góða umhverfi sem boðið er upp á hér. „Ef þú ferð of snemma og veðjar á rangan hest, er hætta á að þú missir af ákveðnum þroska sem erfitt verður að vinna til baka. Því að þetta eru mikilvægustu árin í þroskaferli leikmanna.“ segir Ivic og talar af reynslu.
Það borgar sig því ekki að fara of snemma út en miðað við hæfileikana sem Ivic sér hér á Selfossi er það öruggt að einhverjir munu enda sem atvinnumenn sé rétt haldið á spöðunum. Hann hefur séð það gerast oft og ráðleggur krökkunum á Selfossi að vera hér í þessu góða umhverfi sem greinilega hefur allt það sem þarf til þess að enda sem atvinnumaður.