Taekwondo - Þorsteinn Ragnar Guðnason á HM í poomsae
Laugardaginn 10. nóvember lögðum við af stað, hópur átta keppenda ásamt foreldrum, á HM í Taipei. Við flugum fyrst til Amsterdam þar sem við hittum Lisu Lent landsliðsþjálfara okkar. Þaðan var svo 13 tíma flug til Taipei. Þetta var því mikið ferðalag auk þess sem það er átta klukkutíma tímamismunur á milli Íslands og Taipei. Fyrstu dagana vorum við að venjast tímamismuninum og æfa stíft. Við æfðum tvisvar á dag og hver æfing var 2-3 klst. Hótelið sem við gistum á var allt hið glæsilegasta en við fengum að æfa í jógasal þess og á hótelgöngunum. Á þriðjudeginum fórum við með rútu í keppnishöllina sem var í u.þ.b. 30 mínútna fjarlægð. Við fengum að æfa þar síðustu tvo dagana áður en mótið byrjaði.
Keppnishöllin í Taipei er sú stærsta sem ég hef komið inn í. Þar var fullt af keppendum frá ólíkum löndum og það var mjög flott að sjá alla bestu íþróttamenn landanna æfa sig. Það var því mikil pressa á að standa sig þegar svona margir voru að horfa á. Það var mjög mikil aðsókn í að æfa sig á keppnisgólfinu en við fengum úthlutaðan stuttan tíma hvorn dag sem við máttum æfa á því. Maður þurfti að passa svæðið sitt vel svo að keppendur annarra landa myndu ekki taka það. Á fimmtudeginum byrjaði mótið. Það var haldin opnunarhátíð og var mikil upplifun að fá, ásamt Ásthildi Emmu frá Aftureldingu, að vera fánaberi Íslands þegar öll löndin gengu inn. Fyrsti keppandinn okkar var Hákon Jan frá Ármanni sem keppti í einstaklingsformum í junior flokki drengja. Á föstudeginum kepptu Vigdís Helga, Álfdís Freyja og Gerður Eva (Ármann/Afturelding) í hópaformi í junior flokki stúlkna og María Guðrún (frá Aftureldingu) í einstaklingsformum í -40 ára flokki kvenna.
Á laugardeginum rann keppnisdagurinn okkar í hópaformum junior drengja loks upp, en ég keppti í þeirri grein ásamt Eyþóri Atla og Hákoni Jan úr Ármanni. Ég vaknaði klukkan 5:00 og gerði mig kláran fyrir daginn. Við fórum í morgunmat klukkan 6:00 og lögðum af stað á keppnisstaðinn klukkan hálf sjö. Vigdís var að keppa um morguninn í einstaklingsformi junior stúlkna við horfðum á hana keppa og svo fórum við að æfa. Ég var í mjög góðu dagsformi og fann ekki fyrir miklu stressi. Við vorum að keppa rétt fyrir hádegi svo við höfðum góðan tíma til að æfa. Um 40 mínútum áður en kom að okkur fórum við niður í skoðun og þar þurftum við að bíða þar til röðin kom að okkur. Það var dálítið stressandi en ég reyndi að halda fókus með því að teygja og halda mér heitum. Svo var kallað á okkur og við þurftum að bíða í anddyrinu eftir að það kæmi að okkur að ganga inn á völlinn. Þá fórum við og löbbuðum á eftir íslenska fánanum og þá var komið að þessu! Þegar á gólfið var komið var ég ekki svo stressaður og okkur gekk bara mjög vel og gerðum okkar besta.
Sunnudagur var síðasti keppnisdagurinn og þá keppti Ásthildur Emma í einstaklingsformi Cadet stúlkna. Einnig kepptu Eyþór Atli og Gerður Eva í paraformi junior. Þá var keppni íslenska liðsins lokið og allir keppendur stóðu sig mjög vel og lögðu sig alla fram þó það dygði því miður ekki til að komast áfram í úrslit enda keppnin mjög hörð og margar þjóðir alveg rosalega góðar, til dæmis Kóreumenn sem unnu liðakeppnina og eru því heimsmeistarar. Topp fimm löndin urðu 1. Kórea, 2. Taipai, 3. Mexíkó, 4. Íran og 5. Bandaríkin.
Það var rosalega mikil upplifun að fá að fara og keppa fyrir Íslands hönd og gaman að fá að upplifa svona stórt mót og það í svona framandi landi. Við prófuðum alls konar skrýtinn mat og það var heitt og rakt loftslag. Ólíkt Íslandi var oft í kringum 25-28 stiga hiti þó ekki sæist mikið til sólar. Þó að mest allan tímann hafi athyglin verið á taekwondo náðum við samt aðeins að skoða okkur um og fórum meðal annars upp á topp á einni af hæstu byggingu heims og þar var hraðasta lyfta í heimi, en við fórum upp 89 hæðir á 30 sekúndum! Á opnunarhátíð mótsins var rosa flott drekasýning. Menn voru klæddir sem drekar og voru að gera ótrúlegar kúnstir en drekar eru rosa mikið þema í Taipai en t.d. voru yfir 250 þúsund myndir og líkön af drekum á hótelinu sem við gistum á.
Síðasta daginn, daginn eftir mótið áttum við frídag fram að fluginu heim og þá fórum við pabbi meðal annars með lestinni niður að strönd. Þar var mjög gott útsýni. Svo skoðuðum við markaðina þar og fórum í nokkur leiktæki. Við keyptum ekki mikið vegna þess að hlutir kosta mikið þarna og þetta virðist vera frekar ríkt land og fullt af merkjavörum í búðunum. Þarna eru notaðir taipeiskir dollarar.
Á mánudagskvöldi tók svo við langt og strangt ferðalag heim sömu leið, fyrst þrettán tíma flug til Amsterdam og svo þaðan heim til Íslands. Það tók nokkra daga að jafna sig á tímamismuninum en á fimmtudaginn var allt komið í rétta rútínu og ég mætti í skólann og fór á æfingu enda mátti ekki slá slöku við því strax á laugardaginn fór svo fram Íslandsmeistara mótið í formum og vann ég þar til nokkurra verðlauna. Næst á dagskrá hjá okkur í landsliðinu er Norðurlandameistaramótið sem að þessu sinni verður haldið á Íslandi í janúar, Reykjavíkurleikarnir (Reykjavík International Games) líka í janúar og svo er næsta markmið að komast á EM á næsta ári.
Þorsteinn Ragnar Guðnason,
Taekwondodeild Selfoss og liðsmaður í landsliði Íslands í formum.
---
Mynd með frétt: Þorsteinn Ragnar var fánaberi Íslands á opnunarhátíðinni.
Mynd fyrir neðan: Þorsteinn Ragnar fjórði f.h. með landsliði Íslands ásamt Lisu Lent þjálfara.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Guðni Ragnarsson