Jónína með HSK met í sleggjukasti í flokki 15 ára

MÍ_13júlí_2014 (2)
MÍ_13júlí_2014 (2)

Miðsumarsmót HSK fór fram á Selfossivelli  fimmtudaginn 17. júlí sl. í fínu veðri. Ágætur árangur náðist í nokkrum greinum á mótinu en 25 keppendur voru skráðir til leiks og þar af 12 keppendur frá félögum innan HSK.

HSK met

Jónína Guðný Jóhannsdóttir Umf. Selfoss stóð sig frábærlega er hún sigraði í sleggjukasti 15 ára stúlkna með því að kasta 32,30 m og setja með því sitt sjötta HSK met í sumar. Gamla metið, sem hún átti sjálf var 30,27 m frá því á Gautaborgarleikunum fyrr í sumar. Jónína sigraði einnig í  kringlukasti í sama flokki með góðri bætingu, kastaði  33,63 m.

Í sleggjukasti kvenna sigraði Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi með kasti upp á 35,22 m, sem er einungis 21 cm frá hennar besta árangri. Í kringlukasti kvenna sigraði Eyrún Halla Haraldsdóttir Selfoss með 32,26 m. Í kringlukasti karla bar sigur úr bítum Guðni Valur Guðnason ÍR er hann kastaði 45,56 m. Í sleggjukasti karla sigraði Ólafur nokkur Guðmundsson með 38,55 m.

Hlaupa- og stökkgreinar

Í 100 m hlaupi karla voru níu keppendur og hörkukeppni en þar sigraði landsliðsmaðurinn Ari Bragi Kárason á 10,88 sek. Í 100 m hlaupi kvenna kom fyrst í mark landsliðskonan Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir ÍR á 12,29 sek. Í 400 m hlaupi karla sigraði svo enn einn landsliðsmaðurinn, Trausti Stefánsson FH á tímanum 48,95 sek. sem er ágætur tími og í 400 m hlaupi kvenna sigraði Agnes Erlingsdóttir Laugdælum á 58,92 sek.

Í lanstökki kvenna stökk lengst allra Steinunn Arna Atladóttir FH eða 5,18 m. Í hástökki karla stökk Styrmir Dan Steinunnarson 1,70 m sem var sigurstökkið að þessu sinni en Styrmir setti á dögunum Íslandsmet í 15 ára flokki pilta með því að stökkva 1,94 m.

Næsta stóramót er Meistaramót Íslands í flokkum 15–22 ára en það verður haldið á Selfossvelli helgina 26. -27. júlí nk.

óg

---

Á myndinni er Jónína Guðný í Selfosstreyjunni sinni ásamt Eyrúnu, lengst til vinstri, sem vann kringlu kvenna, Thelmu, í gula jakkanum, sem vann sleggju kvenna og Guðrúnu Huldu sem var að gera fína hluti í sínum fötlunarflokki.
Mynd: Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson