elmarmoso
Lokahóf Mótokrossdeildar Selfoss var haldið laugardagskvöldið 20. september, í aðstöðuhúsi deildarinnar við mótokrossbrautina, eftir vel heppnaðan endurotúr liðsfélaga deildarinnar fyrr um daginn inn á hálendi. Í túrinn mættu þrettán galvaskir meðlimir deildarinnar sem áttu góðan dag á fjöllum og áætlað er að fara með krakka deildarinnar í svipaða ferð síðar. Góð mæting var á lokahófið og var grillað ofan í mannskapinn, allt í allt um þrjátíu manns.
Veitt voru verðlaun fyrir árangur og ástundun sumarsins og fengu eftirfarandi verðlaun.
Púkaverðlaun 2014: Alexander Adam Kuc. Alexander er sennilega búinn að vera með besta ástundun allra krakka sem æfa hjá mótokrossdeildinni og er búinn að standa sig mjög vel í allt sumar á æfingum.
Efnilegust 2014: Ásta Petrea Hannesdóttir. Ásta mætti á æfingu fyrst í byrjun sumars full efasemda um að æfa í krakkabraut mótokrossdeildarinnar en lét tilleiðast og sér ekki eftir því. Ásta hefur tekið stórstígum framförum í sumar og er mjög góð í að tileinka sér nýja tækni sem verið er að kenna henni. Ásta keppti í tveimur keppnum í sumar og krækti sér í verðlaunasæti í þeim báðum.
Efnilegastur 2014: Arnar Daði Brynjarsson. Arnar hefur æft hjá mótokrossdeildinni í tvö ár og má segja að staða hans á hjólinu sé einstaklega góð og tækni til fyrirmyndar af ekki eldri dreng. Við bíðum spennt eftir að sjá Arnar í keppni á næsta ári þegar hann hefur aldur til.
Besti nýliðinn 2014: Ármann Baldur Bragason. Ármann hóf æfingar hjá mótokrossdeildinni í vor og hefur tekið gríðarlegum framförum yfir sumarið enda hefur ástundunin verið afskaplega góð og segja má að hann noti hvert tækifæri til að hjóla.
Hvatningarverðlaun 2014: Sindri Steinn Axelsson. Sindri er á sínu þriðja ári að æfa hjá mótokrossdeildinni og hefur alltaf staðið sig vel, hjólað eins mikið og hann hefur getað og haldið stöðugri framför í gegnum ferilinn, Sindri endaði fjórði til Íslandsmeistara 2014 í 85 cc flokki og mun á næsta ári færast upp í unglingaflokk þar sem hann mun keppa á stærra hjóli.
Gamlinginn 2014: Heiðar Örn Sverrisson. Heiðar varð í sumar Íslandsmeistari í MX-40+ flokki og átti þar í harðri baráttu allt til enda. Heiðar hefur hraða á hjólinu á við bestu menn landsins og þykir það merkilegt fyrir þær sakir að hann hefur ekki hjólað í það mörg ár.
Mótokrosskona ársins 2014: Gyða Dögg Heiðarsdóttir. Gyða varð önnur til Íslandsmeistara í kvennaflokki í ár og á sannarlega framtíðina fyrir sér og hlökkum við til að sjá hana taka þetta á næsta ári.
Mótokrossmaður ársins 2014: Elmar Darri Vilhelmsson. Elmar varð Íslandsmeistari í 85 cc flokki þetta árið eftir harða baráttu. Elmar sigraði þrjú af fimm mótum sumarsins og sýndi það og sannaði að hann átti titilinn svo sannarlega skilið.
---
Hér fyrir neðan eru myndir af verðlaunahöfum.
Myndir: Umf. Selfoss