Ómar Ingi (Eyjólfur)
U-18 ára landsliðið með Selfyssinginn Ómar Inga Magnússon í broddi fylkingar hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur. Liðið sem leikur undir stjórn Einars Guðmundssonar yfirþjálfara Selfoss tók þátt í Sparkassen Cup í Þýskalandi milli jóla og nýárs. Liðið náði 5. sæti á mótinu og var Ómar Ingi markahæstur Íslendinga á mótinu.
Um seinustu helgi tók liðið þátt í forkeppni Evrópumeistaramótsins í Eksjö í Svíþjóð. Ísland var í riðli með Svíþjóð, Grikklandi og Moldavíu. Tvö efstu lið riðilsins unnu sér þátttökurétt í úrslitakeppni EM sem fer fram í Póllandi 14.-24. ágúst 2014.
Eftir slæmt tap gegn Svíum í fyrsta leik komu sigurleikir gegn Moldavíu og Grikklandi sem tryggðu að liðið verður meðal þátttakenda í lokakeppni EM í ágúst. Enn á ný var Ómar Ingi markahæstur Íslendinga og dró vagninn öðrum fremur. Liðið náði markmiði sínu og það er því spennandi sumar framundan hjá Ómari Inga og Einari. Það gaman að fylgjast með þessum efnilegu strákum í framtíðinni.
Til hamingju með glæsilegan árangur.
---
Ómar Ingi eftir leik með Selfoss.
Mynd: Handbolti.org