Rússíbani í fyrsta heimasigri strákanna

handbolti-gudni-ingvarsson-1
handbolti-gudni-ingvarsson-1

Selfoss og ÍBV mættust í Vallaskóla í annað skiptið á fimm dögum í 9. umferð Olís-deildarinnar í gær en aðeins munaði einu stigi á milli liðanna fyrir leikinn.

Eyjamenn leiddu fyrstu mínútur leiksins með einum til tveim mörkum en í stöðunni 7-9 tóku heimamenn við sér og leiddu þeir í hálfleik 20-15.

Í síðari hálfleik héldu Selfyssingar áfram að bæta í og leiddu á tímabili með níu mörkum, 29-20. Þá tók við ævintýralegur kafli Eyjamanna sem röðuðu inn mörkum og jöfnuðu í 32-32 þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Þá tók Helgi Hlynsson markvörður Selfyssinga til sinna ráða og sá til þess að ÍBV skoraði ekki meira í leiknum á meðan Selfyssingar skoruðu sex síðustu mörk leiksins. Selfyssingar unnu leikinn því 38-32.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is og á vefnum FimmEinn.is er viðtal við Guðna Ingvarsson, markahæsta leikmann Selfoss í leiknum.

Mörk Selfoss gerðu Guðni Ingvarsson 13, Einar Sverrisson 8, Elvar Örn Jónsson 6, Andri Már Sveinsson 4, Teitur Örn Einarsson, Alexander Már Egan og Hergeir Grímsson 2 og Guðjón Ágústsson 1. Helgi Hlynsson varði 20 skot og Grétar Ari Guðjónsson 4.

Liðið er í öðru sæti Olís-deildarinnar með 10 stig og tekur á móti toppliði Aftureldingar fimmtudaginn 10. nóvember kl. 19:30.

---

Eyjamenn réðu ekkert við Guðna Ingvarsson í leiknum.
Helgi skellti í lás á lokamínútum leiksins.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/JÁE

handbolti-helgi-hlynsson