Selfoss 2 lék gegn FH 2 í Kaplakrika í gær. Leikurinn var jafn rúmar fyrstu 20 mínúturnar en eftir það sigu FH-ingar langt fram úr og unnu 10 marka sigur.
Fyrri hálfleikur var mjög kaflaskiptur. Selfoss byrjaði mjög vel og komst í 4-8. Hafði þá varnarleikur liðsins verið öflugur og sóknin að skila mjög góðum mörkum. 10 mínútum síðar voru FH-ingar svo komnir 10-9 yfir. FH-ingar héldu áfram eftir það og leiddu 18-14 í hálfleik.
Í síðari hálfleik náði Selfoss aldrei að búa aftur til spennandi leik. FH náði 10 marka forskoti sem Selfoss minnkaði um hæl niður í sex mörk. Aftur seig FH svo fram úr undir lokin og unnu 37-27 sigur.
Eins og tölurnar segja til um var varnarleikur Selfoss ekki góður en hann þurfa strákarnir að laga. Seinustu 50 mínúturnar fékk liðið á sig 33 mörk og ansi lítið í gangi á þeim tíma.. Sóknarleikurinn aftur á móti var góður löngum stundum og var gaman að fylgjast með liðinu þegar boltinn náði að ganga vel milli leikmanna.
Í lokin er ánægjulegt að segja frá því að Guðlaugur Þórðarson lék sinn fyrsta leik í rúm tvö ár eftir að hafa lent í slæmum meiðslum. Hann er nú orðinn heill heilsu og mun láta mikið af sér kveða í vetur.