Bikarafhending
Selfoss varð í dag Íslandsmeistari í 4. flokki karla er þeir sigruðu Fram 23-18 í úrslitaleiknum á Íslandsmótinu. Jafnt var 9-9 í hálfleik en í síðari hálfleik tók Selfoss algjör völd á vellinum og vann sanngjarnan sigur.
Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur. Fram byrjaði með að skora þrjú fyrstu mörkin. Selfoss svaraði með að skora fjögur næstu og komnir 4-3 yfir. Náði Fram þá aftur forystunni og hélt henni nær allan hálfleikinn. Það var ekki fyrr en í stöðunni 9-8 að Selfoss komst aftur yfir en Fram svaraði um hæl og jafn 9-9 í hálfleik.
Fyrri hálfleikurinn einkenndist af afar sterkum vörnum báðum megin þar sem hvorugt liðið náði að koma sér 100% í gang sóknarlega. Í byrjun síðari hálfleik náði Selfoss hins vegar að opna flóðgáttir í sókninni og gerði 6 mörk á fyrstu fimm mínútum leiksins. Skyndilega var staðan orðin 15-11 yfir okkar menn. Fram minnkaði strax í 15-14 en Selfoss bætti aftur í og fór í 19-15. Létu þeir þá forystu aldrei af hendi þó að Framarar næðu að minnka muninn í tvö mörk. Alltaf fundu Selfyssingar lausnir með yfirveguðum og klókum leik. Lokatölur urðu 23-18 sigur Selfyssinga.
Sigurinn var í raun fyllilega verðskuldaður en Selfoss mun sterkari allan seinni hálfleikinn. Sterk vörn Selfyssinga hélt Frömurum alltaf í hæfilegri fjærlægð. Í vörninni var unnið eftir nýju plani sem varð að búa til fyrir um þremur vikum og skilaði það sér svo um munaði. Sóknarlega voru leikmenn mættir til að sigra leikinn og létu vaða allan tímann. Þegar takturinn fannst í byrjun síðari hálfleiks var ekki aftur snúið.
Flottur sigur hjá strákunum sem sýndu það þeir voru bestir í 4. flokki þennan veturinn og einnig það lið sem svaraði mótlæti á sem bestan hátt. Liðið tapaði gegn FH í desember og svaraði því með 17 sigurleikjum í röð. Í lok deildarkeppninnar tapaði liðið svo gegn Haukum. Svöruðu strákarnir því með að hanna nýjan sóknar- og varnarleik þrátt fyrir að missa lykilleikmenn í burtu í úrslitakeppninni og vinna alla þrjá leikina í úrslitakeppninni. Svo sannarlega verðugir meistarar.
Áfram Selfoss!
Íslandsmeistarar 2013 í 4. flokki (Mynd: Eyjólfur HSÍ)
Ómar Ingi Magnússon var valinn maður leiksins (Mynd: Eyjólfur HSÍ)