Á laugardag spilaði 4. flokkur á móti Gróttu í íþróttahúsi Sólvallaskóla. Í A-liðum voru Selfyssingar mun öflugri strax frá byrjun og komust t.a.m. í 8-3 eftir 9 mínútna leik. Grótta minnkaði muninn í 11-10 en Selfoss náði svo að skora seinustu tvö mörk hálfleiksins og fara með góða stöðu inn í leikhlé, 13-10.
Gróttumenn voru sterkari framan af í síðari hálfleik og jöfnuðu í 17-17. Tók Selfoss þá öll völd á vellinum og komst 23-18 yfir. Lokatölur urðu svo 27-24 sigur Selfyssinga.
Selfyssingar áttu mjög góðan leik og var hugarfar leikmanna til fyrirmyndar. Menn mættu til að gefa allt sem þeir áttu í leikinn og höfðu þeir mikla trú á verkefninu. Það skilaði sér í góðum sigri. Strákarnir unnu á hárri ákefð í vörninni og slökuðu nær aldrei á á þeim enda vallarins. Það sást vel á sókninni að liðið var vel undirbúið fyrir leikinn því takturinn í liðinu var sá besti í nokkurn tíma.
B-liðið lék einnig gegn Gróttu og var spilamennska þeirra ágæt á köflum í leiknum. Liðið hins vegar byrjaði á að lenda 1-5 undir og því í erfiðri stöðu. Þegar skammt var til hálfleiks var þriggja marka munur, 11-14 og Selfyssingar einum leikmanni fleiri. Þeir nýttu þá stöðu illa og fimm marka munur í hálfleik. Síðari hálfleikur var ágætur framan af en undir lokin gáfu Selfyssingar mjög eftir og lokatölur 20-34 sigur Gróttu.
Selfoss hefði þurft að ná góðum varnarleik yfir lengri tíma í leiknum. Aðeins hluta af fyrri hálfleik og hluta í seinni hálfleik var hún nægilega öflug en þess á milli fékk Grótta að skora alltof auðveld mörk. Núna einbeita strákarnir sér bara af næsta leik sem er í lok mánaðarins.