Selfossvöllur
ÍA og Selfoss hafa víxlað á heimaleikjum sínum í 1. deildinni í sumar. Liðin áttu að mætast í 1. umferðinni á Selfossvelli á föstudag en nú er ljóst að sá leikur fer fram á Norðurálsvellinum á Akranesi kl. 19:15 á föstudag.
Að sögn Sveinbjörns Mássonar, vallarstjóra, er Selfossvöllur í þolanlegu standi en ákveðnir blettir, sérstaklega annar vítateigurinn sem var undir klaka í vetur, er ekki nærri því nógu góður.
„Við fórum eftir ráðleggingum frá grasvallasérfræðingi okkar hjá Golfklúbbi Selfoss og Skagamenn voru boðnir og búnir þannig að það var ekki spurning að breyta leiknum til þess að hlífa vellinum," sagði Sveinbjörn í samtali við Sunnlenska.is.
Kvennalið Selfoss á fyrsta leik á heimavelli, gegn ÍBV í Pepsi deildinni, þriðjudaginn 13. maí og verður hann spilaður á gervigrasvellinum kl. 18:00. Sveinbjörn telur líklegt að fyrsti grasleikur sumarsins á Selfossvelli verði þann 18. maí þegar kvennaliðið tekur á móti Þór/KA.