Selfyssingar bikarmeistarar

3. fl. kk. bikarmeistarar 2014
3. fl. kk. bikarmeistarar 2014

Strákarnir okkar í 3. flokki urðu í dag bikarmeistarar í handknattleik eftir sannfærandi sigur á Fram 27-24.

Það var ljóst frá upphafi hvert stefndi í leiknum. Selfyssingar náðu strax þriggja marka forskoti sem þeir héldu allan fyrri hálfleik og var staðan í hálfleik 15-12 fyrir okkar pilta.

Í síðari hálfleik var bikarhrollurinn úr okkar mönnum sem léku við hvurn sinn fingur og röðuðu inn mörkunum. Á sama tíma mall vörnin saman og Oliver skellti í lás fyrir aftan hana. Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var munurinn kominn í sjö mörk 22-15. Sá munur hélst þar til tíu mínútur voru eftir af leiknum og ljóst að bikarinn var á leið yfir heim yfir heiðina og Ölfusárbrú. Þrátt fyrir að Framarar hafi klórað í bakkann á seinustu mínútum leiksins var sigurinn aldrei í hættu. Lokatölur í Laugardalshöllinni 27-24.

Það var gríðarlegur fögnuður hjá strákunum sem fögnuðu innilega í leikslok ásamt fjölda Selfyssinga sem lögðu leið sína í Höllina í eftirmiðdaginn. Frábært að fá svona góðan stuðning og strákarnir stóðu svo sannarlega undir væntingum.

Í lok leiks var Hergeir Grímsson valinn maður leiksins en hann var jafnframt markahæstur Selfyssinga með 8 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 6 mörk þar af þrjú úr vítum, Guðjón Ágústsson skoraði 4 mörk, þeir Ómar Ingi Magnússon og Sævar Ingi Eiðsson skoruðu 3 mörk hvor, Árni Guðmundsson 2 mörk og Alex Már Egan 1 mark. Oliver Ingvar Gylfason stóð í markinu allan leikinn og varði hvorki fleiri né færri en 20 skot.

Þetta er glæsilegur árangur hjá strákunum og ekki síður þjálfaratríóinu Sebastian, Erni og Jónda sem stóðu vaktina á hliðarlínunni í dag. Þá vilja strákarnir koma á framfæri þakklæti til Olgu og Soffíu sem sjá til þess að þeir fái orkuríkan og hollan mat á hverjum degi.

Til hamingju strákar og Selfoss.

---

Selfyssingar fagna eftir leik í Laugardalshöll í dag.
Mynd: Umf. Selfoss/Gissur