Opnað hefur verið fyrir skráningu á 15. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Skráningu lýkur á miðnætti 29. júlí. Keppt verður í dansi, fimleikum, frjálsum íþróttum, glímu, golfi, hestaíþróttum, knattspyrnu, körfubolta, mótokross, skák, starfsíþróttum, sundi og taekwondo. Fötluðum einstaklingum býðst að keppa í sundi og frjálsum íþróttum.
Allir krakkar á aldrinum 11-18 ára geta tekið þátt í íþróttakeppni mótsins. Keppendur greiða eitt mótsgjald sem er 6.000 kr. og fá með því þátttökurétt í öllum keppnisgreinum.
Unglingalandsmótin hafa svo sannarlega sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.Samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.