Strákarnir sigruðu í Dalhúsum

Teitur Örn Einarsson
Teitur Örn Einarsson

Selfoss gerði sér góða ferð í Grafarvoginn og sigraði Fjölni 30:32 í fjörugum leik. Fjölnismenn leiddu í fyrri hálfleik og staðan í hálfleik var 18:17 Fjölni í vil. Strákarnir mættu síðan sterkari til leiks í seinni hálfleiks og náðu fljótt að jafna leikinn. Það var kominn mikill hiti í leikinn undir lokin og fékk Sverrir Pálsson rautt spjald. Það var vel tekið á Hauki Þrastarsyni og fékk hann meðal annars þungt högg frá Andra Berg sem einnig fékk að líta rautt spjald. Lokatölur 30:32.

Teitur fór á kostum og skoraði 14 mörk, Árni Steinn Steinþórsson var með 5 mörk, Þeir Hergeir Grímsson og Haukur Þrastarson voru báðir með 4 mörk. Atli Ævar Ingólfsson skoraði 2 og Sverrir Pálsson var með 1 mark.

Helgi Hlynsson átti ágætan seinni hálfleik og varði 9 skot (38%). Sölvi Ólafsson varði 2 skot (22%).

Selfoss er nú í 4.sæti með 18 stig eftir 13 umferðir. Næsti leikur hjá strákunum er fyrir norðan á fimmtudag gegn KA í Coca-cola bikarnum.

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.isMbl.is og Vísir.is. Leikskýrslu má nálgast hér.

____________________________________________

Mynd: Teitur Örn Einarsson fór á kostum í kvöld og skoraði 14 mörk.

Jóhannes Á. Eiríksson.