Aldursflokkamót HSK fór fram á Hvolsvelli sunnudaginn 5. maí. 45 keppendur frá fimm félögum mættu á bakkann í útilauginni. Besta afrek mótsins vann Þórir Gauti Pálsson frá Selfossi í 100m skriðsundi og loksins, eftir margra ára bið, vann lið Selfoss mótsbikarinn með 185 stig. Í öðru sæti varð Dímon á Hvolsvelli með 77 stig og í þriðja sæti varð Hamar í Hveragerði með 69 stig. Garpur frá Rangárþingi ytra og Hekla frá Hellu voru síðan í fjórða og fimmta sæti. Um var að ræða fyrsta útimótið á þessu ári og stóðu krakkarnir sig eins og hetjur þrátt fyrir að kuldinn biti í og eitt og eitt snjókorn félli.