Guðmunda gegn Fylki 2014
Í gær tóku stelpurnar á móti Fylki á JÁVERK-vellinum og var leikurinn í 16. umferð Pepsi-deildarinnar.
Eftir markalausan fyrri hálfleik héldu Selfyssingum engin bönd í seinni hálfleik. Fylkir missti mann af velli í upphafi hálfleiksins og það nýttu heimamenn sér til hins ítrasta. Kristrún Rut Antonsdóttir braut ísinn á 59. mínútu áður en Guðmunda Brynja Óladóttir bætti við marki á 65. mínútu. Karitas Tómasdóttir skoraði þriðja mark leiksins tuttugu mínútum fyrir leikslok og í kjölfarið á því missti Fylkir annan leikmann af velli. Það var svo Gumma sem rak smiðshöggið á sigur stelpnanna okkar með glæsilegu skoti á lokaandartökum leiksins.
Glæsilegur sigur hjá liði Selfoss en allir leikmenn byrjunarliðsins eru uppaldar í sveitum Suðurlands utan Alexu Gaul sem stendur í markinu. Sannarlega glæsilegur árangur og til marks um að uppbyggingarstarf undanfarinna ár ber ríkulegan ávöxt. Sunnlensk samstaða skilar árangri þar sem byggt er á styrkleikunum.
Ítarlega er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.
Þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni er Selfoss í fimmta sæti með 26 stig. Næsti leikur er á útivelli gegn FH mánudagin 22. september kl. 17:15. Pepsi-deildinni lýkur svo laugardaginn 27. september þegar Selfoss tekur á móti Val á JÁVERK-vellinum kl. 14:00.
---
Gumma skoraði tvö mörk og átti góðan leik í gær.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl