Þórir Evrópumeistari

Norska landsliðið í hand­knatt­leik kvenna, und­ir stjórn Selfyssingsins Þóris Her­geirs­son­ar, varð Evr­ópu­meist­ari kvenna í hand­knatt­leik í sjötta sinn í gær þegar liðið vann spænska landsliðið í úr­slita­leik í Búdapest, 28:25. Spán­verj­ar voru tveim­ur mörk­um yfir  í hálfleik, 12:10.

Þetta er í annað sinn sem norska landsliðið verður Evr­ópu­meist­ari und­ir stjórn Þóris. Fyrra skiptið var 2010 og síðan vann liðið silf­ur­verðlaun á EM fyr­ir tveim­ur árum með Þóri í brúnni.

Í frétt á vef mbl.is segir að Spán­verj­ar voru sterk­ari í fyrri hálfleik í úr­slita­leikn­um og voru m.a. með fimm marka for­skot um skeið, 10:5.

Norska liðið jafnaði met­in fljót­lega í síðari, 12:12, og náði síðan yf­ir­hönd­inni sem það lét aldrei af hendi. Norðmenn voru fjór­um yfir, 26:22, þegar átta mín­út­ur voru leiks­loka en þá var lið þeirra manni færra í tvígang með stuttu milli­bili. Það nýttu Spán­verj­ar sér til þess að minnka mun­inn í eitt mark, 26:25. Silja Sol­berg sá til þess í tvígang und­ir lok­in að spænska liðinu tókst ekki að jafna þegar hún varði í opn­um fær­um.

Þetta er í ellefta sinn sem Evr­ópu­mót kvenna er haldið. Norska landsliðið hef­ur leikið til úr­slita á tíu þeirra, þar af á þrem­ur síðustu mót­um und­ir stjórn Þóris. Þetta voru sjöttu gull­verðlaun norska landsliðsins á ell­efu Evr­ópu­meist­ara­mót­um.

---

Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl