Norska landsliðið í handknattleik kvenna, undir stjórn Selfyssingsins Þóris Hergeirssonar, varð Evrópumeistari kvenna í handknattleik í sjötta sinn í gær þegar liðið vann spænska landsliðið í úrslitaleik í Búdapest, 28:25. Spánverjar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10.
Þetta er í annað sinn sem norska landsliðið verður Evrópumeistari undir stjórn Þóris. Fyrra skiptið var 2010 og síðan vann liðið silfurverðlaun á EM fyrir tveimur árum með Þóri í brúnni.
Í frétt á vef mbl.is segir að Spánverjar voru sterkari í fyrri hálfleik í úrslitaleiknum og voru m.a. með fimm marka forskot um skeið, 10:5.
Norska liðið jafnaði metin fljótlega í síðari, 12:12, og náði síðan yfirhöndinni sem það lét aldrei af hendi. Norðmenn voru fjórum yfir, 26:22, þegar átta mínútur voru leiksloka en þá var lið þeirra manni færra í tvígang með stuttu millibili. Það nýttu Spánverjar sér til þess að minnka muninn í eitt mark, 26:25. Silja Solberg sá til þess í tvígang undir lokin að spænska liðinu tókst ekki að jafna þegar hún varði í opnum færum.
Þetta er í ellefta sinn sem Evrópumót kvenna er haldið. Norska landsliðið hefur leikið til úrslita á tíu þeirra, þar af á þremur síðustu mótum undir stjórn Þóris. Þetta voru sjöttu gullverðlaun norska landsliðsins á ellefu Evrópumeistaramótum.
---
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl