Þremur milljónum úthlutað til afreksíþróttafólks

Umf. Selfoss - Afrekssjóður 2018
Umf. Selfoss - Afrekssjóður 2018

Tilkynnt var um úthlutun úr Afreks- og styrktarsjóði Umf. Selfoss og Sveitarfélagsins Árborgar á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar sem fram fór í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands 27. desember sl.

Hluti af úthlutun félagsins, eða um 200 þúsund, fer í endurmenntun sem þjálfarar félagsins sækja en meginhlutinn, eða 2,8 milljónir, eru styrkir sem renna beint til afreksíþróttafólks okkar.

Við úthlutun ársins 2018 fengu fimmtán íþróttamenn úthlutuðum styrk vegna kostnaðar við landsliðsverkefni á árinu. Um er að ræða einstaklinga sem eru farnir að láta til sín taka við keppni með yngri landsliðunum Íslands.

Þrettán íþróttamenn fengu afreksstyrk að upphæð kr. 130 þúsund og er um að ræða einstaklinga sem keppa með A-landsliðum Íslands eða hafa náð sérstaklega góðum árangri í alþjóðlegri keppni. Þeir sem hlutu styrkinn eru frjálsíþróttamaðurinn Kristinn Þór Kristinsson, handboltafólkið Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir, júdómennirnir Breki Bernhardsson, Egill Blöndal, Grímur Ívarsson og Úlfur Þór Böðvarsson og taekwondofólkið Dagný María Pétursdóttir, Daníel Jens Pétursson, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Kristín Björg Hrólfsdóttir.

Við óskum afreksfólki okkar innilega til hamingju með glæsilegan árangur undir merkjum Selfoss og Íslands. Við erum stolt af ykkur og óskum ykkur gæfu og góðs gengis á komandi árum.

Úthlutun úr afreks- og styrktarsjóði 2018

---

F.v. Birta Sif Sævarsdóttir, Ragnhildur Sigurðardóttir f.h. Elvars Arnar, Eva María Baldursdóttir, Tryggvi Þórisson, Hrafnhildur Hanna, Vilhelm Freyr Steindórsson, Perla Ruth, Reynir Freyr Sveinsson, Hrafn Arnarsson, Egill, Halldór Bjarnason, Guðmundur Axel Hilmarsson, Barbára Sól Gísladóttir, Ólöf Ólafsdóttir f.h. Ingibjargar Erlu, Dagný María og Viktor S. Pálsson formaður Umf. Selfoss.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur