Bikarmót í hópfimleikum var haldið hjá Stjörnunni laugardaginn 3. mars. Alls voru níu lið mætt til keppni. Selfoss átti lið í þremur flokkum og stóðu liðin sig öll mjög vel. Öll liðin höfnuðu í 2. sæti í sínum flokki og var minnsti munurinn í 1. flokki.
Lið Selfoss í flokki blandaðra liða keppti á móti Gerplu eins og á unglingamótinu og unnu á dýnu en voru í öðru sæti á trampólíni, dýnu og í samanlögðum stigum með samtals 35,65 stig en lið Gerplu sigraði með 38,20 stig.
Í 1. flokki sigraði lið Gerplu með 45,10 stig en fast á hæla þess kom Selfossliðið með 44,40 stig en sá munur var lítill og voru mistök á trampólíni dýrkeypt fyrir stelpurnar. Þær uppskáru einkunn á gólfi 15,0 stig sem er 0,9 stigum hærra en á Unglingamótinu sem var einmitt þeirra langlægst einkunn á því móti.
Gaman var að sjá meistaraflokkinn koma sterkan til leiks eftir keppnispásu, en þær kepptu síðast í apríl 2011. Þær mættu ferskar á mótið með glænýjan dans sem þótt takast mjög vel til. Þær voru að keyra nýjar umferðir á dýnu og tókst ágætlega upp miðað við fyrsta mót. Þær fengu samanlögð stig 45,60 og voru í 2. sæti á eftir Evrópu- og Norðurlandameisturum Gerplu sem fengu 50,70 stig.
Liðin munu svo koma einbeitt til leiks á undankeppni Íslandsmótsins 31. mars n.k. en það mót verður haldið hjá Gerplu.