handbolti-einar-sverrisson
Fyrsti heimaleikur tímabilsins í Olís-deildinni fór fram í gær þegar Íslandsmeistarar Hauka komu í heimsókn í íþróttahús Vallaskóla.
Jafnt var á öllum tölum fram í miðjan fyrri hálfleik þegar gestirnir sigu framúr og leiddu í hálfleik 12-15. Munaði mest um að Selfyssingar náðu ekki að stoppa í götin í vörninni.
Selfyssingar komu í vígahug til seinni hálfleiks og voru búnir að jafna leikinn og komast yfir áður en hann var hálfnaður. Þá kom slæmur kafli okkar manna sem þeir náðu ekki að brúa og sigldu Hafnfirðingar tveimur stigum yfir heiðina. Lokatölur 31-34.
Markaskorun Selfyssinga: Teitur Örn 8 mörk, Guðni 7, Elvar Örn og Einar 6, Andri Már 3 og Hergeir 1. Grétar Ari og Helgi vörðu 6 skot hvor. Þess má geta að Selfyssingarnir Janus Daði Smárason með 9 mörk og Guðmundur Árni Ólafsson með 8 mörk voru bestu útileikmenn Hauka í leiknum.
Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is auk þess sem Stefán Árnason þjálfari er í viðtali á FimmEinn.is.
Gríðarlega góð mæting var á leikina og troðfull stúka í íþróttahúsi Vallaskóla á mánudag. Það er virkilega gaman að sjá svona góða mætingu og hjálpar liðinu mikið að finna fyrir öflugum stuðningi úr stúkunni.
Næsti leikur er fimmtudaginn 22. september þegar strákarnir sækja Framara heim í Framhúsið kl. 19:30.
---
Einar Sverrisson hefur heldur betur fundið fjölina í fyrstu leikjum Selfyssinga í vetur.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE