Úr efstu deild í Bandaríkjunum í Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur fengið að láni Jimena López frá liðinu OL Reign sem leikur í NWSL deildinni í Bandaríkjunum, efstu deild. Lánssamningurinn gildir út júnímánuð. 

Jimena er 24 ára og getur leyst hinar ýmsu stöður á vellinum, þá helst sem bakvörður, miðvörður, vængbakvörður eða kantmaður. Þrátt fyrir ungan aldur á hún að baki 29 landsleiki fyrir Mexíkó. Áður lék hún með Eibar í spænsku úrvalsdeildinni. Selfoss bindur miklar vonir við Jimena enda leikmaður úr efstu hillu. 

,,Þegar tækifærið kom upp að fá López lánaða þá var ég fljótur að bregðast við. Ég sá hana þegar ég heimsótti félagið fyrr í vetur og var mjög spenntur fyrir henni. Hún mun vonandi gefa okkur auka stöðugleika í varnarlínu okkar á meðan aðrir leikmenn eru að aðlagast nýjum hlutverkum,” segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari meistaraflokks kvenna. 

 

Von er á López til landsins í næstu viku og mun hún ferðast með liðinu síðar í apríl mánuði til Tenerife í æfingaferð.