Tveggja daga þing Frjálsíþróttasambands Íslands var haldið í Fjölbrautaskóla Suðurlands 16.-17. mars síðastliðinn. Að þessu sinni var gestgjafi þingsins Sveitarfélagið Árborg og væsti ekki um þinggesti í rúmgóðum vistarverum Fjölbrautaskólans.
Frjálsíþróttaráð HSK sendi fríðan hóp á þingið: Magnús Jóhannsson, Þuríður Ingvarsdóttir, Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Kári Jónsson, Ingvar Garðarsson, Markús Ívarsson, Steinunn Emelía Þorsteinsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Gunnhildur Hinriksdóttir, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Benóný Jónsson.
Þingforsetar á þinginu voru þeir Guðmundur Kr. Jónsson og Helgi S. Haraldsson, en Örn Guðnason var þingritari. Unnu þeir störf sín af miklu öryggi og var almenn ánægja ríkjandi með sköruglega verkstjórn þingsins.
Mörg mál voru tekin til afgreiðslu á þinginu, m.a. var ákveðið að leggja á 1.000 kr. þjónustugjald á iðkendur frjálsíþrótta á landinu sem greiðist til FRÍ einu sinni á ári. Á þinginu voru samþykktar reglur um ofurhlaup og reglur um framkvæmd götuhlaupa. Þá var einnig samþykkt hækkun á gjaldi vegna félagaskipta íþróttamanna, fór gjaldið í 5.000 kr. Í skýrslu stjórnar kom fram að sambandið var rekið með örlitlum hagnaði á síðustu tveimur árum, en afkoma þess engu að síður erfið og skuldir til trafala. Á þinginu var kosin ný stjórn FRÍ.
Formaður var kosinn Jónas Egilsson, en aðrir í stjórn voru kjörin: Albert Þór Magnússon, Benóný Jónsson, Gunnar I. Birgisson og Lóa Björk Hallsdóttir. Í varastjórn voru kosin þau: Aðalbjörg Hafsteinsdóttir, Eiríkur Mörk Valsson, Fríða Rún Þórðardóttir, Hreinn Ólafsson og Mekkin Guðrún Bjarnadóttir.
Á þinginu voru þrír HSK-félagar sæmdir gullmerki FRÍ, það voru þeir Vésteinn Hafsteinsson, Sigurður Jónsson og Kári Jónsson, allir Selfyssingar. Þá hlutu þau Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK og Sigríður Anna Guðjónsdóttir Umf. Selfoss silfurmerki FRÍ. Bronsmerki FRÍ hlutu: Freyr Ólafsson, upprunalega frá Dímon, en nú aðalsprautan í frjálsíþróttastarfi Ármanns, Jón Jónsson, Umf. Heklu og fyrrum formaður HSK, Ólafur Guðmundsson, úr Laugdælum og formaður mótanefndar FRÍ, Sigurbjörn Árni Arngímsson, RUV/HSÞ og formaður Umf. Laugdæla, og Þuríður Ingvarsdóttir, Umf Selfoss.