Knattspyrna - Viðar Örn til Maccabi
Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skrifaði í gærkvöldi undir fjögurra ára samning við ísraelska úrvalsdeildarliðið Maccabi Tel Aviv en frá þessu var greint á vef Sunnlenska.is í morgun.
Hann kemur til liðsins frá Malmö í Svíþjóð, en þar hefur hann dvalið síðan í janúar og verið funheitur fyrir framan markið, skorað 14 mörk í 20 leikjum. Viðar var til að mynda valinn besti leikmaður júlímánaðar í sænsku úrvalsdeildinni.
"Viðar er fjölhæfur markaskorari með frábæra tölfræði og við höfum lengi reynt að ná í hann. Við erum himinlifandi með komu hans og vonum að hann muni hjálpa okkur með að ná lengra," segir Jordi Cruyff, knattspyrnustjóri félagsins, á heimasíðu liðsins.
Viðar átti langan dag í gær en samningnum var lokað í lok dags. "Þetta hefur verið langur dagur sem hófst í Kaupmannahöfn í morgun [í gær]. Á mjög stuttum tíma hef ég skoðað borgina, sem kom mér skemmtilega á óvart. Ég hitti Jordi Cruyff og þjálfarann Shota Arveladze, fór í gegnum læknisskoðun og heimsótti skrifstofur félagsins. Þetta er greinilega stórlið," sagði Viðar í samtali við Sunnlenska.is.
"Liðið er í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og var í meistaradeildinni á síðasta tímabili. Ég er mjög spenntur að semja við þetta lið því ég veit að þetta er stærsta liðið í Ísrael með frábæra stuðningsmenn og mikla sögu."
Ítarlegra viðtal við Viðar Örn má finna á vef Fótbolta.net en hann fer í dag til Þýskalands og hittir íslenska landsliðið sem mætir Úkraínu í næstu viku á útivelli.