3 f. karla varð Íslandsmeistari um helgina

Valsmenn byrjuðu leikinn betur og komust í 3-6 eftir 10 mín. leik. En strákarnir okkar eru öllu vanir og náðu strax tökum á leiknum aftur og aðeins 5 mín. síðar þá leiddu þeir 8-7. Eftir það var leikurinn hnífjafn og hálfleikstölur 14-13 fyrir Selfoss.

Eins og svo oft áður þá var seinni hálfleikur besti tími liðsins. Flesta leiki vetrarins hafa strákarnir okkar klárað á fyrstu 10 mín. eða um miðbik síðari hálfleiksins. Það varð engin breyting á því í þetta skiptið. Valsmenn héldu leiknum í spennu fyrstu 10 mín. en þá var staðan 17-17. Aðeins 5 mín. síðar var staðan orðin 22-18 fyrir okkar stráka. þessi 4 marka munur hélst svo alveg þar til 5 mín. voru eftir. Þá tók Valur áhættuna og opnaði leikinn í von um að vinna boltann fljótt en okkar strákar leystu það sem sóma og lönduðu 6 marka sigri.

Lokatölurnar gefa því ekki alveg rétta mynd af leiknum því að Valsmenn eru með frábæra leikmenn í mörgum stöðum og marga landsliðsmenn. Þeir spila góða vörn og eru mjög skipulagðir í sókn. Valsmenn voru alltaf líklegir til að koma til baka og það þurfti því það besta í okkar leik að brjóta þá á bak aftur og það tókst. 

Frábær vetur að baki hjá strákunum og það er ekki hægt að mótmæla því að þeir hafi verið besta liðið í vetur í þessum flokki. Töpuðu aðeins 1 leik í deildinni og urðu því deildarmeistarar með þó nokkrum yfirburðum. Töpuðu 1 leik í bikarkeppninni í undanúrslitum frekar klaufalega þar sem þeir voru með vinningsstöðu og rúmar 2 mín. eftir. Loks þá unnu þeir alla leikina í úrslitakeppninni og standa uppi sem Íslandsmeistarar.

Selfoss getur svo sannarlega litið björtum augum á framtíð karlaboltans því auk þessara stráka er nóg af öðrum ungum en góðum leikmönnum til staðar.

 

Unnið er í því að hafa uppá liðsmynd af strákunum og ef einhver á gott eintak þá endilega setjið ykkur í samband við Örn Guðnason framkvæmdastjóra UMFS.

Áfram Selfoss