3. flokkur karla fór í gær til Vestmannaeyja og lék við heimamenn. Lið ÍBV hefur verið að bæta sig mikið að undanförnu en í þessum leik mættu þeir öflugum Selfyssingum sem voru greinilega staðráðnir í að koma sér aftur í gang eftir tvö töp að undanförnu. Strákarnir léku á alls oddi unnu 23-45.
Selfoss komst í 0-5 og var þá ljóst í hvað stefndi. Jafnt og þétt jók liðið forskot sitt sem varð svo fjórtán mörk í hálfleik, 11-25. Í síðari hálfleik stækkaði forskotið aðeins og lokatölur 23-45.
Það er greinilegt að liðið er ekki af baki dottið því þeir sýndu í þessum leik að þeir ætla sér mikla hluti í vetur. Liðið var klárt frá byrjun og lék vel í vörn, hraðaupphlaupum og sókn. Allir leikmenn mættu einbeittir til leiks og hjálpuðu liðinu sem skilaði sér í þessum stóra sigri.
Næsta föstudag er svo næsti leikur í deildarkeppninni þegar liðið mætir Haukum. Heldur þá áfram vinnan í átt að því að koma liðinu enn lengra fram á við. Leiki strákarnir eins og þeir gerðu í leiknum í gær eru þeim allir vegir færir það sem eftir er tímabils.
Áfram Selfoss