Í gær sigraði 4. flokkur karla ÍBV, 27-26, í afar dramatískum leik í undanúrslitum bikarkeppninnar og tryggði sér þannig sæti í úrslitaleiknum sem fram fer í Laugardalshöllinni. Í annað skiptið á þremur dögum voru rúmlega 200 áhorfendur mættir á handboltaleik hjá yngri flokkum á Selfossi og gerðu þeir leikinn eftirminnilegan fyrir leikmenn.
Leikurinn var æsispennandi og reyndi mikið á taugar leikmanna. Eyjamenn mættu með gríðarlega miklum krafti í leikinn. Stemmningin var með þeim framan af og voru þeir skrefi á undan nær allan venjulegan leiktíma. Staðan var 10-10 eftir 18 mínútur og klára þeir hálfleikinn með því að komast 12-15 yfir.
Smám saman komust Selfyssingar nær gestunum og náðu að jafna í 18-18. Það var þó ekki fyrr en í stöðunni 21-20 að liðið komst fyrst yfir í leiknum en þá voru innan við fjórar mínútur eftir. ÍBV svaraði hins vegar um hæl og varð að framlengja leikinn eftir að lokatölur í venjulegum leiktíma höfðu verið 22-22. Gestirnir byrjuðu betur í framlengingunni og komust 23-24 yfir en gerðu þá Selfyssingar næstu þrjú mörk og komst í 26-24. Lokatölur urðu svo 27-26 sigur Selfoss eftir mikinn spennuleik.
Þrátt fyrir að vera undir nær allan leikinn þá héldu Selfyssingar alltaf áfram. Þrekið var meira hjá þeim þegar mest á reyndi og sýndu þeir gífurlegan karakter með því að gefast aldrei upp þrátt fyrir að vera undir meginþorra leiksins. Undir lokin voru okkar menn svo klókari en Vestmannaeyingar og réð það úrslitum.
Varnarleikurinn lagaðist mikið eftir hálfleik en án hans væru Selfyssingar ekki á leið í Höllina. ÍBV náði t.d. einungis að skora 7 mörk í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn gekk hálf stirðlega á köflum í leiknum. Hins vegar höfðu leikmenn kjark og sjálfstraust til að láta vaða og sækja til sigurs þegar mest var undir.
Bikarúrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 26. febrúrar kl. 12:00 í Laugardalshöllinni og mæta Selfyssingar þar liði FH.