Knattspyrna - Barbára Sól Gísladóttir GKS
Barbára Sól Gísladóttir, bakvörður Selfyssinga, er á leið til skoska liðsins Celtic á láni. Óvíst er þó hvenær Barbára fer út þar sem hlé er í skosku úrvalsdeildinni þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins. Stefnan er að Barbára verði á láni í Skotlandi þar til keppni í Pepsi Max-deildinni hefst í vor.
Barbára Sól er einungis 19 ára gömul en hún lék sinn fyrsta A-landsleik á árinu þegar hún kom inn á sem varakona í 9:0-sigri Íslands gegn Lettlandi á Laugardalsvelli í undankeppni EM í september. Hún á tvo landsleiki að baki og 36 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Celtic er í þriðja sæti skosku úrvalsdeildarinnar með 16 stig eftir sjö umferðir, tveimur stigum minna en topplið Rangers og Glasgow City.
Hún er uppalin á Selfossi en alls á hún að baki 50 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað sex mörk.