IMG_6808
Bikarmót í hópfimleikum fer fram í Iðu laugardaginn 15. mars. Keppt verður í tveimur hlutum. Í fyrri hluta keppa lið í 1. flokki sem eru 14-17 ára og í seinni hluta keppa meistaraflokkar sem eru 16 ára og eldri. Alls taka 16 lið frá sjö félögum þátt og verða lið í öllum flokkum það er karlalið, kvennalið og blönduð lið.
Í 1. flokki keppir kvennalið frá Selfossi sem og blandað lið. Blandaða liðið er í keppni um að öðlast þátttökurétt á Norðurlandamóti unglinga sem haldið verður á Íslandi 12. apríl og má búast við skemmtilegri keppni í þessum flokki. Keppni í fyrri hluta hefst klukkan 10:55.
Í meistaraflokknum á Selfoss einnig kvennalið en þær stefna á að ná þátttökurétti á Íslandsmótinu sem fram fer í lok apríl. Keppni í seinni hluta hefst klukkan 15:00.
Við hvetjum alla til að koma og horfa á flotta fimleika en seinni hlutinn verður sendur út í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsending kl. 14:55.