Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, bætti 39 ára gamalt HSK-met í langstökki innanhúss í flokki 16-17 ára pilta á Áramóti Fjölnis, sem haldið var í Laugardalshöllinni þann 30.desember síðastliðinn.
Daníel Breki sigraði í langstökki karla þegar hann stökk 6,67 metra. Í sigurstökkinu bætti hann 39 ára gamaltHSK met Jóns Birgis Guðmundssonar, Umf. Selfoss, í þessum aldursflokki um 5 sentimetra.
Auk gullverðlauna í langstökki sigraði Daníel Breki einnig í hástökki karla, stökk 1,80 m.
Hinn tíu ára gamli Andri Már Óskarsson, Umf. Selfoss, varð annar í 3.000 m hlaupi karla á 12:00,76 mín. Þar með setti Andri HSK met í fimm flokkum; 11, 12, 13, 14 og 15 ára flokkum en enginn Sunnlendingur var með skráðan árangur í þessari vegalengd innanhúss í þessum flokkum.
Tveir Selfyssingar til viðbótar kepptu á Áramóti Fjölnis; Þorvaldur Gauti Hafsteinsson vann silfurverðlaun í 400 m hlaupi karla, hljóp á 53,76 sek og Hugrún Birna Hjaltadóttir vann bronsverðlaun í 400 m hlaupi kvenna, hljóp á 62,85 sek.