Keppnislið HSK/Selfoss í Bikarkeppni FRÍ ásamt þjálfurum
Bikarkeppni FRÍ í flokki fullorðinna fór fram í Kaplakrika 1.mars sl. HSK/Selfoss sendi ungt lið til keppni ásamt nokkrum reynsluboltum. Liðið stóð sig með stakri prýði og endaði í 4.sæti í stigakeppni mótsins. Það var lið FH sem sigraði stigakeppnina að þessu sinni. Kvennaliðið endaði í 3.sæti en karlaliðið í 5.sæti.
Kristinn Þór Kristinsson reimaði á sig keppnisskónna í enn eitt skiptið og kom annar í mark í 1500m hlaupinu á tímanum 4:07,15mín og annar reynslubolti, Örn Davíðsson, kastaði kúlunni til bronsverðlauna með 14,90m löngu kasti, 1cm frá silfursætinu. Anna Metta slær ekki slöku við í þrístökkinu, hún stökk til silfurverðlauna með 11,46cm löngu stökki, eingöngu íslandsmethafinn í greininni hafði betur. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson stökk einnig til silfurverðlauna í þrístökki er hann stökk 12,68m og hann bætti sinn besta árangur í 60m hlaupi er hann kom sjötti í mark á tímanum 7,33 sek. Þórhildur Sara Jónasdóttir bætti sinn besta árangur í 1500m hlaupi með tímanum 5:48,09 mín. Að lokum sló kvennasveitin í 4x200m boðhlaupi hálfsmánaðargamalt HSK met í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára þegar þær hlupu á tímanum 1:50,82 mín. Sveitina skipuðu þær Anna Metta Óskarsdóttir, Hugrún Birna Hjaltadóttir og Arndís Eva Vigfúsdóttir allar frá UMFS og Helga Fjóla Erlendsdóttir Garpi.