Handbolti Hrafnhildur Hanna
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og félagar hennar í íslenska landsliðinu voru hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í umspili fyrir HM sem fram fer á næsta ári. Riðill Íslands fór fram í Færeyjum um helgina.
Liðið vann frábæran sigur í miklum baráttuleik gegn Austurríki 28-24 og bætti svo um betur þegar það vann heimakonur 24-16. Hrafnhildur Hanna skoraði þrjú mörk í báðum leikjunum rétt eins og Steinunn Hansdóttir sem lék með Selfyssingum í Olís-deildinni á seinasta keppnistímabili.
Fyrir lokaleikinn gegn Makedóníu var því ljóst að til að tryggja sæti í umspilinu mátti liðið tapa með allt að 6 marka mun. Íslenska liðið fór illa af stað og lenti sjö mörkum undir í fyrri hálfleik. Stelpunum okkar gekk illa að minnka muninn í seinni hálfleik og þegar stutt var eftir af leiknum hafði Makedónía átta marka forystu. En þá skoruðu þær íslensku tvö mörk á stuttum tíma og leikurinn því galopinn á nýjan leik. Það var hins vegar skytta Makedóníu sem skoraði með langskoti í blálokin og tryggði þeim sigur, 27-20.
Þetta þýddi að Ísland, Makedónía og Austurríki enduðu öll jöfn með fjögur stig í riðlinum en þar sem íslenska liðið var með lélegasta innbyrðismarkahlutfallið milli þessara liða endar liðið í þriðja sæti riðilsins og kemst ekki áfram í umspilið um laust sæti á HM.
Stöllurnar Hrafnhildur Hanna og Steinunn skoruðu hvort sitt markið í leiknum og stóðu fyrir sínu með liðinu.
---
Hrafnhildur Hanna stóð í ströngu í Færeyjum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss