Pétur Már og Kolbeinn
Á laugardaginn tóku krakkar úr frjálsíþróttadeild Selfoss þátt í Silfurleikum ÍR í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Keppendur á mótinu voru 772 talsins og skráningar 2.271, mótið verður stærra með hverju ári og frábært að sjá hvað frjálsar íþróttir njóta mikilla vinsælda nú. Okkar krakkar 11-17 ára stóðu sig rosalega vel á mótinu og mikið var um bætingar. Þegar upp var staðið unnu þau til 15 verðlauna sem er mjög gott á svo stóru móti.
Flokkur 11 ára
Kolbeinn Loftsson vann gullverðlaun í hástökki með 1,38 m og í þrístökki með 9,33 m, varð þriðji í 60 m hlaupi á 9,08 sek og í kúluvarpi (2 kg) með 9,40 m. Árangur hans í þrístökkinu er einnig HSK met en metið átti Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór. Hákon Birkir Grétarsson vann gullverðlaun í kúluvarpi (2 kg) með 10,03 m og varð annar í hástökki með 1,33 m. Hildur Helga Einarsdóttir varð önnur í kúluvarpi (2 kg) með 8,39 m.
Flokkur 13 ára
Pétur Már Sigurðsson vann gullverðlaun í hástökki með 1,63 m, varð annar í kúluvarpi (3 kg) með 12,13 m og þriðji í þrístökki með 10,27 m.
Úrslitin í heild sinni er hægt að skoða á vef Frjálsíþróttasambands Íslands.