Frjálsar - 12 ára stelpur á palli - Helga Fjóla, Arndís, Elísabet Líf, Aldís og Bryndís Embla
Um helgina var Meistaramót Íslands hjá 11-14 ára í frjálsum íþróttum í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika í Hafnarfirði. Mjög góður árangur náðist á mótinu hjá krökkunum sem öll voru að bæta sinn árangur mjög mikið. Hópurinn fékk samtals 28 verðlaun, sjö gull, átta silfur og þrettán brons og mjög margir voru á topp tíu í sínum greinum.
Fimm Íslandsmeistaratitlar og eitt HSK met
Ísold Assa (Selfoss) sigraði í hástökki með 1,56 m í 14 ára flokki. Helga Fjóla (Garpi) sigraði í hástökki með 1,41 m og langstökki með 4,43 m og Bryndís Embla (Selfossi) í kúluvarpi með 8,79 m. Hjálmar Vilhelm (Selfossi) sigraði í kúluvarpi með risakast 12,27 m og Vésteinn Loftsson (Hrunam) í 60 m grindahlaupi á 10,34 sek. Að auki unnu 13 ára piltar (Hjálmar, Vésteinn, Ívar Ylur og Kristinn) sitt boðhlaup 4x200 m.
Þórhildur Lilja (Selfoss) bætti HSK metið í 600 m hlaupi hjá 14 ára stúlkum. Hún hljóp á 1:47,67 mín en það er bæting um 3 sekúndur á gamla metinu sem er mjög gott. Hún endaði í fjórða sæti í mjög spennandi hlaupi.
Íslandsmeistaratitlar tveimur í aldursflokkum
Í flokki 13 ára pilta unnum við sannfærandi sigur með 174 stig en næsta félag, ÍR, var með 51 stig. 12 ára stúlkur unnu líka sinn flokk með 119 stig eftir spennandi keppni við FH. 14 ára stúlkurnar voru einnig hársbreidd frá sigri en þær enduðu í þriðja sæti 2 ½ stigi á eftir fyrsta sætinu og hálfu stigi á eftir öðru sæti. 14 ára piltar voru í öðru sæti í sínum flokki.
HSK/Selfoss endaði í öðru sæti í heildarstigakeppninni með 547,5 stig. Það er flottur árangur hjá okkar krökkum sem lögðu sig flest 100% fram í að ná í stig fyrir félagið en tíu fyrstu í hverri grein fá stig.
Öll úrslit mótsins má finna á Þór - mótaforriti FRÍ
Myndir frá mótinu má Flickr-síðu FRÍ
Umf. Selfoss/ÞI
---
Á mynd með frétt er lið HSK/Selfoss í flokki 12 ára stelpna f.v. Helga Fjóla, Arndís, Elísabet Líf, Aldís og Bryndís Embla
Fyrir neðan er lið HSK/Selfoss í flokki 13 ára stráka fremst er Vikar f.v. Helgi, Vésteinn, Hjálmar, Ívar Ylur og Kristinn
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/ÞI