Laugardaginn 8. desember sl. var hin árlega jólasýning fimleikadeildar Selfoss. Í ár var sett upp sýning byggð á sögunni um Galdrakarlinn í OZ. Vægt til orða tekið stóðu krakkarnir sig frábærlega og heppnuðust allar sýningarnar mjög vel. Íþróttahús Vallaskóla fylltist þrisvar sinnum og vel á annað þúsund manns sáu kraftmikla krakka með bros á vör geisla á gólfinu í dansi og stökkum. Hvert atriðið var öðru flottara og tónlistin skemmtileg og grípandi.
Undirbúningur fyrir sýningu sem þessa hefst í byrjun nóvember og eykst jafnt og þétt eftir því sem dagarnir líða og síðasta vikan fyrir sýningu er gríðarlega annasöm. Jólasýningin er hápunktur vetrarstarfs fimleikadeildarinnar þar sem allir sameinast í leik og starfi. Eldri iðkendur búa að reynslu undanfarinna ára og þau yngri eru fljót að læra. Þau sem fara með aðalhlutverk eru valin af handhófi í hvert skipti, en þau leysa leikþáttinn af einskærri snilld ár eftir ár, þannig að eftir er tekið. Ekki má gleyma þjálfurunum sem vinna þrekvirki árlega með því að láta allt smella á réttum tíma. Fimleikadeildin vill koma á framfæri þökkum til þeirra fjölmörgu sem gerðu sýninguna að veruleika en það krefst margra handtaka að gera allt klárt á sólarhring fyrir sýningu. Iðkendur, þjálfarar, foreldrar, fyrirtæki og velunnarar, kærar þakkir fyrir að gera þennan dag að veruleika.