Þrátt fyrir mikla yfirburði ÍBV í leiknum þá var leikurinn samt sem áður hin besta skemmtun og umgjörðin öll fyrir fyrirmyndar. Selfoss komst þó í 2-0 og eftir 15 mín. var staðan orðin 4-7 fyrir gestina. Þá opnuðust allar flóðgáttir og ÍBV skoraði mikið úr hröðum upphlaupum án þess að stelpurnar okkar kæmust tímanleg í vörnina. Hraðinn var hreinlega bara of mikill fyrir Selfoss. Mikið af þessum hraðaupphlaupum komu eftir að Florentina Stanciu varði oft á tíðum góð skot okkar stelpna en hún er bara yfriburðarmarkvörður í íslenskum handknattleik. Staðan í hálfleik var orðin 8-16 en hefði nú samt getað verið betri þar sem Selfoss brenndi af 2 vítaköstum í fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik spiluðu varamenn ÍBV talsvert og var það von heimamanna að bilið gæti minnkað eitthvað en það tókst ekki alveg. Ungu stelpurnar í ÍBV eru margar hverjar mjög góðar í handbolta og þar sem Selfoss liðið var orðið frekar þreytt af þessum mikla hraða í leiknum þá hreinlega urðu þær bensínlausar þegar það leið á leikinn. Staðan 5 mín. fyrir leikslok var 18-31 og allt stefndi í að sigur ÍBV yrði undir 15 mörkum en það tókst ekki. ÍBV liðið hreinlega keyrði yfir frekar þreyttar Selfoss stelpur og vann lokakaflann 6-2. Lokatölurnar eins og áður segir 37-20.
Góðu punktarnir voru margir. Hrafnhildur Hanna gerði sér lítið fyrir og skoraði 10 mörk úr 17 skotum og náði vel að spila á sömu getu og gestirnir. Thelma Sif bætti 4 mörkum við hún spilaði meidd á fæti og meiddist svo á öxl ofan á það. Thelma Björk skoraði 3 mörk og Helga 1 en þær eru báðar ennþá í 4 flokki. Loks bættu eldri leikmennirnir okkar, Edda og Guðrún Herborg, við sitt hvoru markinu. Allir leikmenn fengu að koma inná og lögðu sig allar fram þær mínútur sem þær spiluðu. Sem sagt frábær upplifun í alla staði fyrir stelpurnar okkar.
Til gamans má geta þess að lið Hauka tapaði síðan á laugardeginum 38-20 fyrir ÍBV sem ekki bara sýnir hversu öflugar þær eru heldur líka það að á góðum degi þá er munurinn á okkar liði og liðunum í neðri hluta N1 deildarinnar ekki óyfirstíganlegur. Selfoss á bara örfá ár í það að geta verið með í N1 deildinni af einhverri alvöru og því er það bæði mikilvægt fyrir uppbyggingu félagsins og til að sjá stöðuna að spila a.m.k. 1 á ári við svona öflugt lið eins og ÍBV.
Að lokum viljum við þakka þeim fjölmörgu áhorfendum sem komu á leikinn og sköpuðu góða stemmningu á meðan að leik stóð og stjórn deildarinnar fyrir frábæra umgjörð í leiknum.
Næsti leikur liðsins er á morgun á móti FH kl. 21:00 í Vallaskóla.