Markmiðið er að bæta styrk, snerpu og úthald

Rúnar Hjálmarsson
Rúnar Hjálmarsson

Það er í nógu að snúast hjá Rúnari Hjálmarssyni, aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna, en hann sér einnig um styrktarþjálfun beggja meistaraflokka ásamt því að sjá um styrktarþjálfun handknattleiksakademíunnar. Selfoss.net ræddi við Rúnar um starf hans innan handknattleiksdeildarinnar.

Hversu lengi hefur þú séð um styrktarþjálfun í handboltanum?

Þetta er þriðja árið hjá mér sem styrktarþjálfari hjá handknattleiksdeild Selfoss. Vésteinn Hafsteinsson hefur séð um að setja saman prógrammið fyrir okkur í samstarfi við mig og Jónda [Jón Birgi Guðmundsson].

Þetta fer þannig fram að við tölum við Véstein og látum hann hafa upplýsingar og hugmyndir. Hann setur svo saman prógrammið fyrir okkur og ég stýri svo lyftingunum og sé um tækniþjálfunina. Við smíðum síðan inn í prógrammið styrktaræfingar og fyrirbyggjandi æfingar frá Jónda. Á undirbúningstímabilinu set ég upp hlaupaprógram með lyftingum en þegar boltaæfingarnar byrja aftur hætta útihlaupin, þá smíðum við lyftingarnar saman við boltaæfingarnar. Einnig notum við jóla- og janúarpásuna vel til að styrkja okkur og endurhlaða fyrir seinni hlutann, þá fjölgum við lyftingaræfingunum og tökum vel á því, við notum þessa pásu sem undirbúningstímabil númer tvö.

Hvert er markmiðið með styrktarþjálfun og hverjar eru áherslurnar fyrir handboltaiðkendur?

Markmiðið með styrktarþjálfuninni er að bæta líkamlegan styrk, snerpu og úthald leikmanna. Það er svo aftur á móti mikið undir íþróttamanninum sjálfum komið hversu mikið hann bætir sig, því svefn og mataræði verður einnig að vera í lagi til að hámarka árangurinn. Við vitum það að ef við látum ekki eldsneyti á bílinn, eða látum rangt eldsneyti á hann þá stoppar hann, þá skiptir engu máli hversu mörg hestöfl bíllinn er.

Handboltinn er orðinn miklu hraðari en hann var hér áður og reynir hann mikið á styrk, snerpu og úthald. Þess vegna byggjum við styrktarprógrammið þannig upp að leikmenn bæti hestöflum í skrokkinn þannig að þeir verði miklu öflugri í sínum aðgerðum.

Hvernig er styrktarþjálfun háttað í akademíunni?

Í akademíunni erum við að undirbúa leikmenn fyrir það að geta komið inní þetta, kennum þeim tæknina og búum til grunninn í styrk og liðleika. Grunnurinn þarf alltaf að vera í lagi og það tekur sinn tíma.

Að lokum vil ég fá að hrósa öllum í þjálfarateyminu hjá meistaraflokkum karla og kvenna fyrir virkilega góða samvinnu. Einnig vil ég hrósa stjórn deildarinnar fyrir frábært starf og framlag til handboltans á Selfossi síðustu árin, það er ómetanlegt.