Matthías í viðtali fyrir einvígið gegn Aftureldingu

Á morgun, fimmtudag, leikur meistaraflokkur karla fyrsta leikinn í umspilinu um sæti í efstu deild. Kl. 19:30 mæta Selfyssingar liði Aftureldingar í Mosfellsbæ og er von á hörku einvígi. Hvetjum við alla Selfyssinga til að mæta og styðja við bakið á strákunum sem koma inn í umspilið í toppformi.

Í upphitun fyrir leikinn fékk heimasíðan  Matthías Örn Halldórsson til að svara nokkrum spurningum um einvígið.


Hvernig líst þér á umspilsleikina gegn UMFA?

Mér líst bara mjög vel á þá, þetta er spennandi verkefni sem að ég get ekki beðið eftir að taka þátt i.


Hvernig metur þú okkar möguleika?

Ég vil meina að við eigum góðan séns á því að vinna þessa leiki. Það er búinn að vera stígandi í liðinu og mjög góður andi uppá síðkastið og ég held að allir séu klárir að mæta í þessa leiki og gera það sem þarf til þess að vinna.


Ertu sáttur við árangurinn í deildinni?

Ég er svona þokkalega sáttur við gengið, ekki síst eftir áramót. Það eru kannski einn eða tveir leikir sem að maður hefði viljað fá meira útúr t.d. Stjarnan úti í 3ju umferð og svo Víkingur heima í 3ju umferð. Annars þá settum við okkur það markmið fyrir tímabilið að komast í umspil sem og við gerðum. Þannig það er lítið annað hægt en að vera bara sáttur.


Hvað þarf til að Selfoss komist í fremstu röð?

Það sem þarf helst er að halda í þá ungu leikmenn sem eru að koma upp, margir leikmenn sem eru að stíga upp í meistaraflokki sem og leikmenn í yngri flokkunum sem eru að gera það gott og eiga til með að gera það gott í mfl. á næstu árum. 


Eitthvað að lokum?

Hvet bara alla til þess að koma á þessa leiki sem eru framundan og styðja við bakið á okkur. 

 

 

Matthías hefur leikið frábærlega fyrir Selfoss í vetur.