hsk_rgb
Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum 11-14 ára verður haldið á Selfossvelli dagana 27.-28. júní nk. Frjálsíþróttaráð HSK mun sjá um framkvæmd mótsins og nú þegar hefur tekið til starfa sérstök Meistaramótsnefnd sem sér um skipulagningu í aðdraganda mótsins.
Auk þess að sjá um frjálsíþróttakeppnina mun ráðið selja gistingu með morgunmat í Vallaskóla á meðan mótinu stendur og boðið verður upp á kvöldverð og kvöldvöku á laugardagskvöldinu, allt á hóflegu verði. Allt þetta krefst þess að margir sjálfboðaliðar séu fúsir til þess að gefa vinnu sína á meðan mótinu stendur.
Viltu vinna á mótinu og afla fjár fyrir þitt félag?
Ákveðið hefur verið að líkt og á unglingalandsmótinu og landsmótinu muni 80% þess hagnaðar sem verður af mótinu renna til félaganna sem útvega sjálfboðaliða. Hluti hvers félags mun reiknast eftir unnum klukkustundum í nafni félagsins. Þau 20% sem eftir standa af hagnaði mótsins munu svo renna til frjálsíþróttaráðs. Það er því til mikils að vinna fyrir félögin og um að gera að nýta mótið til fjáröflunar.
Aðildarfélög ráðsins hafa fengið sent eyðublað þar sem hvert félag á að skrá niður þá sjálfboðaliða sem geta unnið á mótinu í nafni síns félags. Þessu eyðublaði á að skila inn á netfangið gudmunda89@gmail.com fyrir 20. maí 2015.
Hver einstaklingur þarf ekki að vinna alla helgina heldur er hægt að skrá sig á annan hvorn daginn eða jafnvel dagspart. Það eru ýmis störf í boði, hvort sem er við íþróttakeppnina eða í tengslum við matinn og gistinguna.
Þeir sem hafa áhuga á að starfa á mótinu fyrir Selfoss og afla fjár fyrir sitt félag er bent á að hafa samband við Þuríði Ingvarsdóttur á netfangið thuryingvars@gmail.com fyrir næsta miðvikudag. Einnig má senda póst á hsk@hsk.is.