MÍ 11-14 ára 2018
Um 50 keppendur af sambandssvæði HSK tóku þátt í Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum sem haldið var á Egilsstöðum helgina 23. – 24. júní sl.
Skemmst er frá því að segja að liðið hafði algjöra yfirburði á keppnisvellinum og vann stigakeppnina með fáheyrðum mun og vann þar að auki stigakeppni allra aldusflokka, bæði hjá stelpum og strákum. Ekki er vitað til að það hafi gerst áður. Lið HSK Selfoss hlaut samtals 1136,5 stig í heildarstigakeppninni en FH varð í öðru sæti með 362 stig.
Eitt HSK met var sett á mótinu, en Karólína Helga Jóhannsdóttir bætti metið í 80 m grindahlaupi 13 ára þegar hún kom í mark á 13,49 sek. Solveig Þóra Þorsteinsdóttir átti gamla metið, 13,55 sek.
Á vefnum Sunnlenska.is er mjög góð samantekt en þar eru taldir upp allir meistaratitlarnir sem iðkendur á sambandssvæði HSK unnu.
14 ára piltar
Sebastian Þór Bjarnason fór heim hlaðinn verðlaunum en hann vann sex Íslandsmeistaratitla í flokki 14 ára pilta. Sebastian sigraði í 100 m hlaupi, langstökki, kúluvarpi, spjótkasti og 80 m grindahlaupi þar sem hann bætti sinn besta árangur og hljóp á 12,49 sek. Hann var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4x100 m boðhlaupi. Með honum í sveitinni voru Goði Gnýr Guðjónsson, Haukur Arnarsson og Sæþór Atlason. Brynjar Logi Sölvason varð Íslandsmeistari í hástökki í þessum sama flokki.
14 ára stúlkur
Guðný Vala Björgvinsdóttir varð Íslandsmeistari í langstökki, þar sem hún bætti sinn besta árangur og stökk 4,61 m.
13 ára piltar
Rúrik Nikolai Bragin varð Íslandsmeistari í spjótkasti en hann sigraði með yfirburðum og kastaði 41,50 m. Þá varð sveit HSK/Selfoss Íslandsmeistari í 4x100 m boðhlaupi en sveitina skipuðu Tómas Þorsteinsson, Daði Kolviður Einarsson, Elías Karl Heiðarsson og Einar Breki Sverrisson.
13 ára stúlkur
Karólína Helga Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í 80 m grindahlaupi á nýju héraðsmeti, 13,49 sek. Hún var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4x100 m boðhlaupi en með henni í sveitinni voru Eyrún Hjálmarsdóttir, Rebekka Georgsdóttir og Árbjörg Sunna Markúsdóttir.
12 ára piltar
Veigar Þór Víðisson varð fjórfaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í hástökki, kúluvarpi og spjótkasti þar sem hann bætti sig og kastaði 28,22 m. Auk þess var Veigar Þór í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4x100 m boðhlaupi. Með Veigari voru í sveitinni þeir Þórbergur Egill Yngvason, Daníel Breki Elvarsson og Eyþór Birnir Stefánsson.
12 ára stúlkur
Álfrún Diljá Kristínardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi og Þórhildur Arnarsdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki þegar hún jafnaði sinn besta árangur og stökk 1,26 m. Hún var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4x100 m boðhlaupi en auk hennar voru í sveitinni Ásdís Mjöll Benediktsdóttir, Katrín Zala Sigurðardóttir og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir. Boðhlaupið var æsispennandi en sveit HSK varð 0,06 sekúndum á undan sveit Ungmennafélags Akureyrar.
11 ára piltar
Kristófer Árni Jónsson fór mikinn í þessum flokki og varð þrefaldur Íslandsmeistari, sigraði í 600 m hlaupi, kúluvarpi og spjótkasti og bætti sinn besta árangur í tveimur síðasttöldu greinunum.
Þrístökk á heimavelli Vilhjálms
Samhliða meistaramótinu fór fram þrístökkskeppni Vilhjálms Einarssonar, sem var viðeigandi þar sem Vilhjálmsvöllur á Egilsstöðum er heimavöllur silfurmannsins frá Ólympíuleikunum í Melbourne 1956. Keppt var í öllum aldursflokkum í þessari grein og komust sunnlensku krakkarnir iðulega á verðlaunapall.
Kristófer Árni Jónsson hlaut silfur í flokki 11 ára, Veigar Þór Víðisson sigraði í flokki 12 ára, Daði Kolviður Einarsson hlaut silfur í flokki 13 ára eftir sentimetraslag við Rúrik Nikolai Bragin sem fékk bronsið og í flokki 14 ára vann HSK/Selfoss þrefaldan sigur. Sebastian Þór Bjarnason sigraði og Sæþór Atlason varð annar, en báðir stukku þeir 11,26 m. Haukur Arnarsson varð þriðji.
Hjá stúlkunum sigraði Stephanie Ósk Ingvarsdóttir í flokki 11 ára og í flokki 14 ára varð Guðný Vala Björgvinsdóttir önnur og Hrefna Sif Jónasdóttir þriðja.
Heildarúrlit mótsins
Úr fréttabréfi HSK / Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl