Merki HSK - Logo
Helgina 17. – 18. febrúar sl. fór fram Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsíþróttum innanhúss í Kaplakrika Hafnarfirði. HSK Selfoss sendi öflugt lið sem samanstóð af 41 efnilegum unglingum víðsvegar af suðurlandi. Keppendur HSK Selfoss stóðu sig frábærlega og uppskáru eftir því. Liðið sigraði í heildarstigakeppni félaga sem er besti árangur þessa aldurshóps í töluvert mörg ár, fékk 328 stig á móti 302 stigum ÍR sem varð í öðru sæti. Í einstökum flokkum þá sigraði HSK Selfoss 15 ára flokka bæði stúlkna og pilta með yfirburðum, sem og 18 -19 ára flokk pilta, varð í öðru sæti 16 -17 ára flokki pilta og í þriðja sæti í flokkum 16 -17 ára flokki stúlkna. Hópurinn rakaði til sín verðlaunum eða 43 í heildina sem skiptist í 15 gull, 20 silfur og 9 brons. 11 HSK met voru sett um helgina og síðast en ekki síst þá litu dagsins ljós 84 bætingar hjá okkar fólki.
Fimmtán Íslandmeistaratitlar
HSK Selfoss átti 16 einstaklinga sem voru fremstir meðal jafningja í 15 greinum. Sindri Freyr Seim Sigurðsson Heklu var atkvæðamikill á mótinu, hann sigraði í fimm einstaklingsgreinum í flokki 15 ára pilta; í 60 m. hlaupi á 7,65 sek., 200 m. hlaupi á 24,37 sek. en þetta er bæting í báðum þessum greinum, 300 m. hlaupi á 38,48 sek. 60 m. grindahlaupi á 9,77 sek. og þrístökki með 11,28 m. auk 4x200 m. boðhlaups ásamt félögum sínum þeim, Unnsteini Reynissyni og Elíasi Erni Jónssyni báðum úr þjótánda og Hjalta Snær Helgasyni Selfoss. Í sama flokki varpaði Ólafur Magni Jónsson UMF. Bisk. allra pilta lengst 12,11 m. Í 15 ára flokki stúlkna kom Birta Sigurborg Úlfarsdóttir Dímon fyrst í mark á 45,44 sek. sem og í 60 m. grindahlaupi á 9,68 sek. Birta var svo í sigursveit HSK Selfoss í 4x200 m. boðhlaupinu ásamt þeim Þórdísi Ósk Ólafsdóttur Dímon, Evu Maríu Baldursdóttur Selfoss og Jónu Kolbrúnu Helgadóttur UMF Bisk. Þá stökk Eva María allra stúlkna hæst í hástökki í þessum flokki eða 1,68 m. sem er bæting á hennar eigin HSK meti um þrjá cm. og lengst allra í þrístökki með 10,85 m.
Í 16 – 17 ár flokki stúlkna varð Hildur Helga Einarsdóttir Selfoss Íslandsmeistari í kúluvarpi á bætingu, 13,34 m. Þá varð piltasveitin í þessum sama flokki meistari í 4x200 m. boðhlaupi á 1:38,73 mín. og HSK meti í fjórum flokkum. Auk 16-17 ára flokksins, í 18-19 ára, 20-22 ára og fullorðinsflokki, en sveitina skipuðu þeir Hákon Birkir Grétarsson, Jónas Grétarsson og Dagur Fannar Einarsson alllir í Selfoss og Máni Snær Benediktsson UMF. Hrun. Að lokum sigraði Bjarki Óskarsson Þór Þorlákshöfn í stangarstökki 18-19 ára pilta með 3,00 m. sem er bæting.
Það voru svo 12 keppendur HSK Selfoss sem unnu til 20 silfurverðlauna í hinum ýmsu greinum og 12 keppendur HSK Selfoss sem hirtu 9 bronsverðlaun sem er frábær árangur.
Ellefu HSK met
Keppendur HSK Selfoss settu ellefu HSK met. Eins og áður segir setti Eva María Baldursdóttir Selfoss HSK met í hástökki í 15 ára flokki stúlkna og piltasveit 16-17 ára setti HSK met í fjórum flokkum í 4x200 m. boðhlaupinu. Dagur Fannar Einarsson Selfoss setti svo glæsilegt HSK met í 400 m. hlaupi í 16-17 ára flokki pilta á tímanum 52,18 sek. og nálgast nú þá bestu í fullorðinsflokki en gamla metið var 53,09 sek. Í sama flokki bæti Bríet Bragadóttir Selfoss sitt eigið HSK met í 60 m. hlaupi um eitt brot er hún kom í mark á 8,11 sek. en þetta er líka met í 18- 19 ára flokki. Bríet bætti einnig sitt eigið met 60 m. grindahlaupi í sama flokki. Hljóp á 8,21 sek. en gamla metið hennar var 9,25 sek. Að lokum var það svo Telma Björk Einarsdóttir Selfoss sem bætti sitt eigið met í kúluvarpi stúlkna 20 - 22 ára um fjórtán cm. varpaði 13,18 m.
HSK Selfoss er nú Íslandsmeistari í 11 – 14 ára flokki og unglingaflokki 15 – 22 ára og því ljóst að framtíðin er björt á HSK svæðinu. Nú þarf bara að halda áfram og horfa fram á veginn, halda iðkendum við efnið og byggja ofan á þetta og þá verðum við komin með sterkt fullorðinslið innan nokkurra ára.
Ólafur Guðmundsson úr fréttabréfi HSK