4. flokkur 2 - lið ársins
Laugardaginn 13. maí síðastliðinn fór fram árlegt Minningarmót fimleikadeildar Selfoss. Mótið er uppskeruhátíð deildarinnar og er haldið til minningar um Magnús Arnar Garðarsson, sem var félagi og þjálfari í deildinni en hann lést árið 1990. Foreldrar Magnúsar, þau Garðar Garðarsson og Valborg S. Árnadóttir gefa alla eignarbikara og bikar fyrir lið ársins.
Á mótinu keppa allir iðkendur deildarinnar, sem eru 7 ára eða eldri, en Minningamót yngri flokkana fer fram í maí. Hver hópur fær svo verðlaun fyrir sitt besta áhald. Í lok mótsins eru veittar einstaklingsviðurkenningar fyrir framför og ástundun, félaga ársins, efnilegasta unglinginn og fimleikakonu og karl ársins. Að auki eru veitt verðlaun fyrir lið ársins í yngri flokkum.
Viðurkenningu fyrir lið ársins fékk 4. flokkur 2, en það er hópur 10-11 ára stúlkna, sem hafa sýnt skemmtilegan karakter í vetur, standa sig vel á æfingum og eru þéttur og flottur hópur.
Viðurkenningu fyrir framfarir og ástundun fengu Karitas Líf Sigurbjörnsdóttir og Ævar Kári Eyþórsson.
Viðurkenningu fyrir efnilegasta unglinginn fengu Auður Helga Halldórsdóttir og Daníel Már Stefánsson.
Félagi ársins var að þessu sinni Ingveldur Jóna Þorbjörnsdóttir
Titilinn fimleikakona ársins fékk Evelyn Þóra Jósefsdóttir, en fimleikamaður ársins var valinn Sindri Snær Bjarnason.
Að þessu sinni heiðruðum við einnig Birtu Sif Sævarsdóttur, Margréti Lúðvígsdóttur og Tönju Birgisdóttur en þær voru allar þátttakendur á Evrópumótinu í hópfimleikum, sem fór fram í október síðastliðnum, Birta og Margrét sem keppendur en Tanja sem þjálfari.
Að lokum voru kallaðar fram "eldhúskonurnar okkar" en þær hafa sinnt sjálfboðaliðastarfi fyrir deildina í fjölda ára. Þær standa vaktina á öllum mótum sem við höldum, við að elda mat ofan í dómara og þjálfara, auk þess sem þær eru með hlaðborð af kökum og bakkelsi. Þær eru orðnar löngu þekktar sem "landsliðið" og hlakka allir dómarar til að koma á Selfoss að dæma, vitandi af kræsingunum sem bíða þeirra. Þess háttar sjálfboðaliðastarf er okkur ómetanlegt og því vildum við gefa þeim smá þakklætisvott, aðgang að spa og út að borða fyrir 2 á Hótel Selfoss. Á myndina vantar Ragnheiði Thorlacius, Sigurveigu Sigurðardóttur og Kristjönu Hallgrímsdóttur.
Frábær dagur þar sem að iðkendurnir okkar fengu að láta ljós sitt skína og mörg lið nýttu tækifærið og keyrðu keppnisæfingarnar sínar, þar sem Íslandsmótin fara fram núna í apríl og maí.
Myndir: Inga Heiða Heimisdóttir