Norðurlandamóti í Svíþjóð lokið

Mynd: Inga Heiða Andreasen
Mynd: Inga Heiða Andreasen

Stúlkurnar í 1. flokki eru nú komnar heim eftir keppnisferð til Svíþjóðar, þar sem þær kepptu á Norðurlandamóti unglinga.

Mótið var haldið laugardaginn 20. apríl og var liðið vel undirbúið eftir margra mánaða undirbúning og tilbúið til leiks. Í upphitun meiddist því miður ein úr liðinu og gat ekki keppt með, sem setti stórt strik í reikninginn. Liðið sýndi þó mikla þrautseigju og þrátt fyrir þetta óhapp náðu þær að klára daginn eins vel og unnt var. Vinnan sem liðið hefur lagt á sig síðustu mánuði sást vel á þessum tímapunkti, en það hefur verið mikið unnið með samheldni, sjálfstraust og að taka það pláss sem þær eiga skilið. Liðið endaði í 6. sæti eftir að hafa skilað sínum æfingum vel af sér og geta verið stoltar af sér eftir þennan dag, þrátt fyrir að hann hafi ekki gengið upp nákvæmlega eins og þær sáu fyrir sér.

Það er vert að minnast á vínrauðu stúkuna en Selfoss átti fjölmarga stuðningsmenn á mótinu sem studdu liðið af miklu kappi, en orkan frá þeim var smitandi. Áhorfendur voru í vínrauðum bolum, með vínrauða fána og klöppur sem Coca-cola á Íslandi styrkti liðið um. Áhorfendur Selfoss studdu Ísland jafnt sem Selfoss á þessu móti og fengu mikið hrós frá foreldrum annarra íslenskra iðkenda fyrir stuðning þvert á félög en það sýnir greinilega hvernig stuðningsmenn Selfoss eru - við stöndum saman en getum á sama tíma hvatt aðra til dáða.

Þjálfarateymi stúlknanna hefur lagt á sig ómælda vinnu síðustu mánuði við að gera allt í tengslum við þetta verkefni að veruleika og eiga þau stórt hrós skilið fyrir allt sitt. Það er leitun að eins metnaðarfullum og góðum þjálfurum sem leita sífellt leiða til að ná lengra og gera betur. Við erum þakklát fyrir að hafa þau í okkar röðum.

Þjálfarar liðsins, Mads Pind, Margrét Lúðvígsdóttir, Sally Ann Vokes og Tanja Birgisdóttir ásamt Unni Þórisdóttur sjúkraþjálfara.

 

Við erum stolt af því að hafa svona hæfileikaríkar, efnilegar og flottar stúlkur í 1. flokki, og magnað þjálfarateymi - áfram Selfoss!

Einbeitingin í hámarki í upphitun á Norðurlandamóti.