Elvar og Perla 2018
Þau Perla Ruth Albertsdóttir og Elvar Örn Jónsson voru kosin íþróttakona og íþróttakarl Árborgar árið 2018, annað árið í röð. Kjörinu var lýst á verðlaunahátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar í hátíðarsal FSu í gærkvöldi. Sérstök valnefnd stóð fyrir kjörinu ásamt netkosningu, en hún gilti 20% á móti valnefndinni, yfir 1.000 atkvæði bárust með netkosningunni. Perla Ruth sigraði með 68 stigum, önnur í kjörinu varð frjálsíþróttakonan Hulda Sigurjónsdóttir úr Suðra með 52 stig. Elvar Örn sigraði með 94 stigum og á eftir honum kom júdómaðurinn Egill Blöndal með 74 stig.
Perla Ruth var í lykilhlutverki hjá kvennaliði Selfoss í handbolta sem náði sínum besta árangri á síðasta tímabili og varð í 6. sæti Olís-deildarinnar. Henni hefur gengið vel á yfirstandandi tímabili og verið fjórum sinnum valin í lið umferðarinnar í fyrstu níu umferðunum. Hún er í 6. sæti yfir sterkustu leikmenn deildarinnar miðað við HB statz tölfræðina. Perla Ruth er orðin fastamaður í A-landsliðinu í handbolta og skilar ávallt miklu framlagi inni á vellinum.
Elvar Örn er sömuleiðis lykilmaður í karlaliði Selfoss í handbolta sem náði sínum besta árangri í sögunni á síðasta tímabili þegar liðið varð í 2. sæti í Olís-deildinni og féll úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins. Á yfirstandandi tímabili hefur Elvar Örn verið valinn í lið umferðarinnar fjórum sinnum í fyrstu tíu umferðunum en Selfoss er í toppbaráttunni í deildinni. Hann lék mjög stórt hlutverk í Evrópuleikjum Selfoss í haust og hefur verið valinn í öll verkefni A-landsliðsins á þessu ári.
---
Elvar Örn og Perla Ruth á verðlaunaafhendingunni.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl Sigurdórsson