Rúmar 6 milljónir á Selfoss vegna HM

Nigeria v Iceland: Group D - 2018 FIFA World Cup Russia
Nigeria v Iceland: Group D - 2018 FIFA World Cup Russia

Knattspyrnudeild Selfoss fékk rúmlega 6,3 milljónir króna úr HM framlagi Knattspyrnusambands Íslands til aðildarfélaga sinna en KSÍ greiddi 200 milljónir króna til aðildarfélaga sinna vegna HM í Rússlandi.

Í samræmi við samþykkt ársþings KSÍ byggir ákvörðun um framlag til aðildarfélaga fyrst og fremst á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum sl. 2 ár, 2017 og 2018, Félögum er skipt upp í tvo flokka. Annars vegar félög í deildarkeppni, sem eru með unglingastarf og hins vegar félög sem ekki standa fyrir barna- og unglingastarfi.

Selfoss og 46 önnur félög með unglingastarf, fá liðlega 198,5 milljónir króna sem skiptast eftir gefnum stigum sem miðast við stöðu í deildum á áðurnefndu tímabili.

Fjármunum sem veitt er til aðildarfélaga skal eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna. Nánar má lesa um úthlutunina á vefsíðu KSÍ.

---

Góður árangur Selfyssinga á knattspyrnuvellinum undanfarin ár skilar félaginu miklum tekjum.
Ljósmynd: DV