Selfoss_merki_nytt
Aldursflokkamót HSK, 11-14 ára, var haldið í Þorlákshöfn á laugardaginn 15.júní. Selfoss fór með 21 krakka á mótið og stóðu þau sig frábærlega. Samtals unnu krakkarnir til 28 gullverðlauna, 27 silfurverðlauna og 13 bronsverðlauna. Pétur Már Sigurðsson, 13 ára, var stigahæsti einstaklingur mótsins ásamt Styrmi Dan Steinunnarsyni, 14 ára, úr Þór en þeir unnu báðir allar fimm greinarnar í sínum flokki. Glæsilegur árangur hjá Pétri.
Selfoss var með keppendur í sex flokkum af átta og vorum við stigahæst í öllum þeim flokkum. Í heildarstigakeppni mótsins voru Selfyssingarnir lang stigahæstir með 406 stig en næsta félag var með 180 stig. Glæsilegur árangur hjá öllum Selfosskrökkunum sem voru flest að bæta sig og því miður ekki hægt að telja það upp hér en hægt er að skoða árangur mótsins á heimasíðu FRÍ.
Góð byrjun á sumrinu og nú um næstu helgi er svo Meistaramót Íslands í þessum aldursflokki og verður spennandi að fylgjast með krökkunum þar.