Selfoss merki
Selfoss mun spila gegn ÍBV um þriðja sætið á Ragnarsmóti kvenna í handbolta en úrslitaleikirnir verða leiknir í dag, laugardag.
Mótið hófst á miðvikudag en að lokinni riðlakeppninni er ljóst að Fram og Grótta munu leika til úrslita kl. 16:00 í dag.
Selfoss mætir ÍBV kl. 14:00 en FH og HK spila um 5. sætið klukkan 12:00.
Á miðvikudag mætti Selfoss FH í riðlakeppninni og sigraði örugglega, 28-20. Staðan í hálfleik var 15-12.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Adina Ghidoarca voru markahæstar Selfyssinga með 6 mörk, Elena Birgisdóttir skoraði 5, Perla Ruth Albertsdóttir og Carmen Palamariu 4 og þær Margrét Katrín Jónsdóttir, Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Dagmar Öder Einarsdóttir 1 mark hver.
Í gær léku Selfyssingar svo gegn Fram og töpuðu 29-30 í hörkuleik. Staðan í hálfleik var 17-19.
Hrafnhildur Hanna fór á kostum og skoraði 12 mörk í leiknum, Adina 7, Perla Ruth 5, Carmen 4 og Elena 2.
Fylgist með mótinu á fésbókarsíðu Ragnarsmótsins.