58809762_1455911511228164_2029294463070765056_o
Selfoss vann Val í framlengdum leik í Hleðsluhöllinni í gær, 35-34, en leikurinn var fyrsti leikur liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts Olísdeildar karla.
Leikurinn byrjaði með miklum hraða en allt var í járnum. Valur náði frumkvæðinu um miðbik hálfleiksins áður en Selfyssingar náðu svo að jafna leikinn aftur, staðan 17-17 í hálfleik.
Í síðari hálfleik voru liðin aðeins mistækari, en boltinn datt meira fyrir Val í byrjun. Rúmar 8 mínútur voru liðnar af hálfleiknum þegar fyrsta markið kom hjá Selfyssingum og aftur náðu Valsmenn forustunni, 4 mörk þegar mest var. Selfoss vann sig hins vegar aftur inn í leikinn og jöfnuðu þegar um 8 mínútur voru eftir af síðari hálfleik. Við tóku spennandi lokamínútur sem enduðu með því að Selfoss náði að knýja fram framlengingu.
Í framlenginunni fóru Selfyssingar af stað af miklum krafti og skoruðu þrjú fyrstu mörkin. Valsmenn náðu að saxa á þessa forustu, en höfðu það ekki af að klára hana. Eins marks sigur í einum af mest spennandi leikjum tímabilsins staðreynd.
Mörk Selfoss: Haukur Þrastarson 13, Elvar Örn Jónsson 5/2, Nökkvi Dan Elliðason 5/1, Árni Steinn Steinþórsson 5, Guðni Ingvarsson 4, Hergeir Grímsson 2, Guðjón Baldur Ómarsson 1.
Varin skot: Sölvi Ólafsson 10 (33%), Pawer Kiepulski 4 (22%).
Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is og Vísir.is og Mbl.is.
Leikur tvö fer fram í Origo höllinni á Hlíðarenda á föstudagskvöldið kl 20:00. Vinna þarf þrjá leiki í undanúrslitum til þess að komast áfram í úrslitarimmuna. Það er því ljóst að það verður hið minnsta einn leikur enn í Hleðsluhöllinni sem fram fer á mánudagskvöld kl. 19:30. Valsmenn hafa rétt út sína hönd og býður stuðningsfólk Selfoss velkomið í Fjósið fyrir leik, við hvetjum auðvitað fólk til að fjölmenna á báða þessa leiki.
Mynd: Haukur Þrastarson fór með himinskautum og skoraði 13 mörk.
Umf. Selfoss / JÁE