Sigur hjá Selfoss í spennuleik

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á Aftureldingu í Olís deildinni í gærkvöldi. Leikurinn var í meira lagi sveiflukenndur og réðust úrslit ekki fyrr en á lokamínútu leiksins þegar Þuríður Guðjónsdóttir skoraði sigurmark Selfyssinga.

Að loknum fyrri hálfleik var fátt sem benti til þess að Selfyssingar myndu fá eitthvað út úr leiknum. Vörnin var hriplek og sóknin hikstaði. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 12-16 fyrir gestina.

Það var allt annað Selfosslið sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Vörnin stóð vaktina og fyrir aftan hana fór Áslaug Ýr Bragadóttir að verja hvern boltann á fætur öðrum. Það tók Selfyssinga ekki nema tíu mínútur að jafna leikinn í 19-19 og í framhaldi af því komust þær yfir 23-21. Stelpunum tókst þó ekki að hrista Mosfellinga af sér og voru lokamínútur leiksins æsispennandi. Lokatölur urðu 26-25 og fögnuður Selfyssinga var mikill í leikslok.

Stelpurnar fengu mikinn stuðning fjölda áhorfenda úr stúkunni sem fleytti þeim langt í þessum leik.

Markahæstar voru Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir með 9 mörk, Hildur Øder Einarsdóttir með 5 mörk og Tinna Soffía Traustadóttir með 4 mörk. Þuríður, Kara Rún Árnadóttir og Hulda Dís Þrastardóttir skoruðu 2 mörk hver og Thelma Sif Kristjánsdóttir og Dagmar Øder Einarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr varði 12 skot í markinu og Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 3 skot.

Frábær umfjöllun um leikinn á Sunnlenska.is.

Að loknum fjórum umferðum er Selfoss í 5. sæti Olís deildarinnar með 4 stig. Næsti leikur stelpnanna er gegn Gróttu á heimavelli nk. laugardag kl. 13:30. Hvetjum fólk til að fjölmenna á völlinn.