Sigur í spennutrylli út í Eyjum

EinsiSvess
EinsiSvess

Strákarnir fóru til eyja í gærkvöld þar sem þeir öttu kappi við ÍBV í Olísdeildinni.  Eftir algeran naglbít síðustu mínúturnar fóru Selfyssingar með sigur af hólmi, 26-27.

Selfyssingar byrjuðu leikinn af meiri krafti og skoruðu fjögur mörk gegn einu fyrstu fimm mínúturnar.  Eyjamenn unnu sig hins vegar inn í leikinn og voru búnir að jafna fimm mínútum síðar.  Jafnt var á öllum tölum eftir það þar til Selfyssingar skoruðu tvö síðustu mörk hálfleiksins og leiddu því 12-14 í hálfleik.  Leikurinn hélst í jafnvægi en Selfyssingar alltaf á undan að skora þar til ÍBV komst yfir, 21-20, um miðjan hálfleikinn.  Það var í fyrsta sinn síðan í stöðunni 1-0 sem heimamenn leiddu leikinn.  Selfyssingar hertu þá tökin og virtust vera með leikinn í hendi sér.  Leiddu 22-26 þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.  Eyjamenn eru hins vegar vanir því að hleypa svona leikjum upp í spennu í lokin og það tókst þeim í þessum leik.  Það endaði með því að ÍBV hefðu getað jafnað leikinn á lokasekúndunum í galopnu færi af línunni.  Skotið rataði fram hjá Vilius í markinu en líka fram hjá markinu og sigur í höfn hjá Selfyssingum, lokatölur 26-27.

Mörk Selfoss: Hergeir Grímsson 9/7, Einar Sverrisson 7, Ragnar Jóhannsson 5, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Nökkvi Dan Elliðason 2, Gunnar Flosi Grétarsson 1, Magnús Öder Einarsson 1.

Varin skot: Vilius Rasimas 12 (35%), Alexander Hrafnkelsson 1/1 (33%).

Með sigrinum hoppa Selfyssingar yfir ÍBV og fleiri í þessari jöfnu töflu og upp í þriðja sæti.  Næsti leikur þeirra er gegn Val í Hleðsluhöllinni þriðjudaginn 4. maí kl. 19.40.


Einar Sverrisson var frábær í leiknum og skoraði 7 mörk úr opnum leik.
Umf. Selfoss / SÁ