Frjálsar - Eva María Baldursdóttir
Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna fór fram í Laugardalshöllinni á dögunum. HSK/Selfoss átti níu keppendur, auk þess sem Kristinnn Þór héraði 800 m hlaup karla þ.e. að hann hélt uppi hraðanum fyrri hlutann, en hann gat ekki hlaupið í göddum vegna meiðsla. Árangur okkar fólks var með miklum ágætum.
Sindri Freyr Seim Sigurðsson Heklu stórbætti árangur sinn í 600 m hlaupi, hljóp á 1:29,88 mín. og varð annar. Hann bætti þar með ársgamalt HSK met Dags Fannars Einarssonar um rúmar fjórar sekúndur í þremur aldursflokkum, þ.e. í 15 ára, 16-17 ára og 18-19 ára flokkum.
Eva María Baldursdóttir Selfossi stökk 1,65 metra í hástökki og varð fjórða. Hún bætti ársgamalt HSK met sitt í þessum flokki um einn sentimetra. Hún átti góða tilraun við 1,70 m og það er ekki spurning um hvort heldur hvenær hún vippar sér yfir þá hæð.
Guðrún Heiða Bjarnadóttir Selfossi jafnaði sinn besta árangur í langstökki, stökk 5,77 m., en hún bætti HSK metið í kvennaflokki í langstökki á dögunum.
Birta Sigurborg Úlfarsdóttir úr Dímon varð í í 2. sæti í 600 metra hlaupi í flokki 15 ára og yngri og hljóp á tímanum 1:46,33 mín. Hún bætti árangur sinn um tæpar 6 sekúndur og var ekki langt frá HSK-metinu.
Ljóst að við eigum flott frjálsíþróttafólk sem á eftir að láta mikið að sér kveða á næstu vikum, misserum og árum. Næsta mót er MÍ í fjölþrautum, en það fer fram í Reykjavík um næstu helgi.
Úr fréttabréfi HSK